Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Funda degi eftir að samningar áttu að nást

17.08.2020 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Næsti fundur í kjaradeilu Sjómannafélags Íslands og útgerðarfélags Herjólfs verður haldinn á morgun. Þegar verkfalli var aflýst í síðasta mánuði var stefnt að því að samningur lægi fyrir í dag.

 

Þriggja daga verkfalli undirmanna á Herjólfi var aflýst 20. júlí síðastliðinn, nokkrum klukkustundum áður en það átti að hefjast. Í tilkynningu Sjómannafélags Íslands á þeim tíma var tilgreint að stefnt væri að því að ná samningum fyrir 17. ágúst. Sá dagur er runninn upp en enginn samningur hefur verið undirritaður. Samninganefndir félaganna hittust á fundi síðastliðinn fimmtudag og næsti fundur verður á morgun.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að viðsemjendur hafi skipst á hugmyndum og sjónarmiðum í síðustu viku og haldi því áfram á morgun. „Það er nú alltaf von þegar fundur er boðaður að það hafi einhverja lúkningu í för með sér. Vissulega vonumst við til þess að þoka þessu eitthvað áfram og fá niðurstöðu í þessa stöðu.“

Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir fundahöldin hefðbundin. „Ég veit ekkert hvort maður á að vera bjartsýnn eða svartsýnn. Það er eiginlega að spyrja að leikslokum. Það er svo sem ekkert í hendi. Það er verið að fara yfir ákveðin atriði og engin niðurstaða sem gefur sérstaklega til kynna einhverja bjartsýni.“

Fundurinn í síðustu viku var sá fyrsti frá því verkfalli var aflýst í síðasta mánuði. Fundurinn á morgun hefst klukkan tíu í fyrramálið.