Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Yfirvöld óttast mikla útbreiðslu í Seúl

16.08.2020 - 05:47
epa08604720 Members of South Korea's Conservative group for a protest against the government marking the 75th anniversary of the National Liberation Day, in Seoul, South Korea, 15 August 2020. The protesters gathered to demand President Moon Jae-in step down.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
279 tilfelli kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 voru greind í Suður-Kóreu í gær. Þau hafa ekki verið fleiri á einum sólarhring síðan í byrjun mars. Yfirvöld óttast mikla útbreiðslu veirunnar á höfuðborgarsvæðinu í landinu. Tilfellin í lanidnu eru samanlagt rúmlega 15 þúsund og yfir þrjú hundruð eru látnir.

Langflest tilfellanna í gær greindust í Seúl og nágrenni. Þar hafa yfirvöld átt í vandræðum með að ná stjórn á tilfellum sem tengjast kirkjusöfnuðum, hjúkrunarheimilum, skólum, veitingastöðum og farandsölum, að sögn AP fréttastofunnar.

Fyrsta bylgja faraldursins í Suður-Kóreu reið að mestu leyti yfir borgina Daegu í suðurhluta landsins. Nokkur hundruð tilfelli greindust þar á hverjum degi. Seúl er tífalt fjölmennari.

Fyrstu tilfelli kórónuveirunnar greindust á sama tíma í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. Suðurkóresk yfirvöld tóku fljótt upp á því að skima fyrir veirunni og einangra smitaða, og varð fyrsta bylgjan heilbrigðiskerfinu því aldrei ofviða. Í Bandaríkjunum er fyrsta bylgjan í raun enn í gangi. Þar hafa yfir 50 þúsund tilfelli verið greind á hverjum degi í langan tíma, og yfir þúsund látið lífið á degi hverjum undanfarið. Þar eru tilfellin orðin rúm fimm og hálf milljón, eða nærri 17 þúsund á hverja milljón íbúa. Í Suður-Kóreu eru tilfellin tæplega þrjú hundruð á hverja milljón.

Tilfelli á heimsvísu eru orðin 21,6 milljón samkvæmt tölfræðivefnum Worldometers. Nærri 770 þúsund eru látnir af völdum COVID-19.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV