Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tíu almennir borgarar drepnir í hryðjuverkaárás

16.08.2020 - 23:25
Fiskibátar við höfn í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, 2012. Hægra megin á myndinni sést í Aruba-hótel, sem hefur skemmst illa í bardögum.
 Mynd: Flickr - AMISOM
Tíu almennir borgarar og einn lögreglumaður létu lífið í árás vígamanna á hótel í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu í dag. Fimm vígamenn úr röðum Al-Shabaab hryðjuverkasamtakanna réðust inn á hótel við strönd Mogadishu, eftir að bílsprengja var sprengd fyrir utan það. AFP fréttastofan hefur eftir Ismael Mukhtaar Omar, talsmanni upplýsingaráðuneytisins, að vígamennirnir hafi allir verið felldir. 

Hótelið er í eigu þingmanns og er vinsælt meðal stjórnmálamanna úr sómölsku stjórninni. Að sögn fréttastofu BBC voru minnst tveir embættismenn meðal hinna látnu. Tugir eru slasaðir. 

BBC segir Al-Shabaab hafa birt skilaboð á netinu þar sem hreyfingin lýsti yfir ábyrgð á árásinni. Vígahreyfinigin hefur gert fjölda árása í Sómalíu í meira en áratug. Undanfarna tvo mánuði hefur árásum hreyfingarinnar farið fjölgandi í höfuðborginni.