„Þetta átti að fara svona“

Mynd: Gígja Hólmgeirsdóttir / RÚV

„Þetta átti að fara svona“

15.08.2020 - 09:50

Höfundar

Textíllistakonan Anna Gunnarsdóttir fann strax að hún var komin heim, þegar hún ákvað að flytja vinnustofu sína og listagallerí í nýtt húsnæði á iðnaðarsvæðinu í þorpinu á Akureyri. Hún átti sér alltaf þann draum að fara í myndlistarnám en hóf þó starfsferil sinn innan heilbrigðisgeirans. Þar fann hún ástina, á skurðstofunni á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Í verkum sínum vinnur Anna aðallega með íslenska ull og gerir úr henni þrívíddarverk. Hún segir ullina gefandi efni. „Mér finnst bara svo gott að vinna með ullina, hlýtt að vinna með volgt vatn og geta formað þetta. Þannig að mér finnst ullin alveg mitt númer eitt,“ segir hún. Rætt var við Önnu um líf hennar og störf í þættinum Sögum af landi á Rás 1. 

Alin upp við mikla handverkshefð

Anna er fædd og uppalin í þorpinu á Akureyri, á sömu slóðum og hún rekur núna vinnustofu sína og listagalleríið Hvítspóa. Hún fæddist í húsi sem var kallað Fagranes en það hús byggðu móðurafi hennar og amma. Anna dvaldist mikið hjá þeim og ólst þar upp við mikla handverkshefð. 

„Þau voru að sauma töskur og þá var ekki til mikið af innfluttum töskum, þannig að þau voru að sauma innkaupatöskur. Svona peningabuddur og fleira fyrir bankana. Og ég man eftir mér þegar ég var pínulítil, þegar ég sat með ömmu og var að klippa spotta og raða tölum í Macintoshbauka, þannig að þetta hefur alltaf verið í mér, handverkið, og að gera eitthvað með höndunum," segir Anna.

Fann ástina á skurðstofunni

Þrátt fyrir að listir og sköpun hafi alltaf átt hug hennar þá menntaði Anna sig ekki strax í slíkum greinum. Hún fór fyrst í Sjúkraliðaskóla Íslands og vann á sjúkrahúsi í nokkur ár. Eftir sjúkraliðaskólann ætlaði hún að halda áfram að læra og stefndi á ljósmæðranám. Hún ákvað að fara heim til Akureyrar yfir sumarið, enda sárvantaði sjúkraliða fyrir norðan, og safna sér þannig inn pening fyrir áframhaldandi dvöl í Reykjavík.

„Ég var fyrst að vinna á fæðingardeildinni, því mér fannst gott að fá meiri reynslu. En svo var ein sem var að vinna á skurðstofunni, hún þurfti að fara í veikindafrí, þannig að það vantaði einhvern niður á skurðstofuna. Þannig að ég var send þangað,“ rifjar hún upp. Anna fór síðan aldrei suður aftur því þarna á skurðstofunni á Sjúkrahúsinu á Akureyri kynnist hún manni sínum, indverska svæfingalækninum Girish Hirlekar. 

Mætti á sumarskónum beint í storminn á Akureyri

Anna rifjar upp að á sama tíma og hún er að klára sjúkraliðaskólann þá er Girish búinn að mennta sig sem svæfingalæknir á Indlandi og ráðgerði flutning til Bandaríkjanna, eins og svo margir Indverjar gerðu á þeim tíma. Frændi hans var þá ræðismaður Íslands í Mumbai og Girish ákvað að skrifa bréf til Íslands um að fá að koma til landsins og vinna í þrjá mánuði á leiðinni til Bandaríkjanna. Hann fær svar og það vantar svæfingalækni á Akureyri.

„Hann kemur 27. desember beint frá Indlandi til Akureyrar, í stormi, á sumarskónum sínum og fer að vinna á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta var fyrir 42 árum síðan,“ rifjar Anna upp og segir eins og þetta hafi allt verið niðurskrifað. „Þetta átti að fara svona. Ég átti ekki að fara suður og hann átti ekki að fara til Bandaríkjanna.“ 

Draumurinn um myndlistarnám rættist

Þrátt fyrir að Anna hafi í byrjun menntað sig sem sjúkraliði stefndi hún ekki á feril innan heilbrigðisgeirans þegar hún var ung. Sem barn var hún mikið að teikna og mála og draumurinn var alltaf að fara í myndlistarskóla. Hún lét síðan drauminn rætast þegar hún var orðin eldri og búin að stofna fjölskyldu. „Þá fór ég í Verkmenntaskólann á Akureyri á hönnun- og textílbrautina þar. Og eftir það fór ég til Danmerkur og lærði þæfingu, svona þrívíddarþæfingu, í eitt ár í bænum Skals.“ Anna hefur síðan þá unnið við textíllistina og sýnt verk sín víðs vegar um heiminn. Hún er einnig eftirsóttur kennari í þrívíddarþæfingu.

Alþjóðleg samtal mikilvægt

Anna tekur virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Til að mynda sýningarstýrði hún samsýningunni Hverfandi landslag sem nú stendur yfir á Listasafninu á Akureyri. Þar sýna íslenskir og finnskir textíllistamenn þæfð verk úr ull og viðfangsefnið er áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga. 

Mynd: Listasafnið á Akureyri / Aðsend
Anna sýningarstýrði samnorrænu samsýningunni Hverfandi landslag á Listasafninu á Akureyri. Hér má heyra Önnu segja frá sýningunni. Mynd: Listasafnið á Akureyri.

 

Það er síðan margt framundan. „Ég er að fara að sýna í Svíþjóð með myndlistarmönnum frá Akureyri. Við ætlum að sýna núna í september og vonandi komumst við þangað, en alla vega fara verkin út. Og síðan er ég að opna einkasýningu í Mjólkurbúðinni á Akureyri og svo er ég að opna aðra sýningu úti sem er verið að vinna að. Og þessi verk sem ég er að vinna að núna eru ekki unnin úr ull. Ég er að vinna með þræði, alls konar litaða þræði og ýmislegt. Garn og reipi og ríf niður gömul textílefni og er að vefja því utan um rafmagnsvíra. Þannig get ég formað verkin og fengið ljós og skugga frá því og fengið skúlptúra á gólfið,“ segir textíllistakonan Anna Gunnarsdóttir. 

Rætt var við Önnu Gunnarsdóttur um líf hennar og störf í þættinum Sögum af landi á Rás 1.