Sjö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og ekkert við landamærin, en fjórir bíða eftir niðurstöðu mótefnamælingar eftir sýnatöku þar. Fjórir þeirra sem greindust voru í sóttkví.
3.342 sýni voru tekin í gær, þar af 2.805 við landamærin, 501 sýni var tekið af sýkla- og veirufræðideild LSH og 36 af Íslenskri erfðagreiningu.
605 eru nú í sóttkví og einn á sjúkrahúsi. Nýgengi innanlandssmita er nú 21,0, sama og í gær og nýgengi landamærasmita er 7,1.
Flestir þeirra sem eru í sóttkví búa á höfuðborgarsvæðinu, 402. 73 eru í sóttkví á Suðurlandi og 28 á Suðurnesjum. Fólki í sóttkví á Austurlandi fjölgaði úr níu í 21.