Mikil áskorun fyrir lýðræðið í Bandaríkjunum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Geir Ólafsson - RUV
Bandaríkjaforseta gengur illa að snúa kosningabaráttunni sér í vil og svo gæti farið að eftir 80 daga hafi Demókratar náð forsetaembættinu og meirihluta í báðum deildum þingsins. Kórónuveirufaraldurinn hefur geisað nánast óáreittur í Bandaríkjunum því eins og veiran skæða hefur aðgerða- og andvaraleysi forsetans smitast út í samfélagið. Faraldurinn er hvergi eins útbreiddur og þar og setur allt í senn í uppnám, efnahag Bandaríkjanna, kosningarnar sjálfar og forsetatíð Donalds Trump.

Áður en kórónuveirufaraldurinn náði að skjóta rótum í Bandaríkjunum var Trump frekar líklegur til að ná endurkjöri. Hann hafði staðið við margt af því sem hann boðaði í kosningabaráttunni, og hagur margra þeirra sem studdu hann síðast hafði vænkast. Sigur Trumps fyrir fjórum árum kom mörgum á óvart. Sérstaklega þeim sem ekki voru í miklum tengslum við stóran hóp Bandaríkjamanna sem á í erfiðleikum með að framfleyta sér og fjölskyldum sínum.

Faraldurinn setti allt á annan endann

Í byrjun árs var efnahagslífið í blóma, atvinnuleysi frekar lágt og þegar þannig árar halda sitjandi forsetar nánast undantekningarlaust völdum. Það sem Trump tókst síðast var að ná til þeirra sem voru reiðir og ósáttir og frábáðu sér lausnir hefðbundinna stjórmálamanna. Þeir vildu eitthvað nýtt, og því var viðbúið að það yrði erfitt fyrir Trump að ná endurkjöri. En það virtist þó á góðri leið með að takast, þar til kórónuveirufaraldurinn setti allt á annan endann í Bandaríkjunum, og um allan heim. Og alveg frá byrjun hefur Trump reynt að gera lítið úr þeim vandamálum sem honum fylgja, því hann vissi sem var að efnahagslægð myndi draga mjög úr möguleikum hans á að ná endurkjöri.

Kórónuveiran lét hitann í apríl ekki hafa áhrif á sig heldur þvert á móti. Það dró úr fjölgun tilfella í maí og júní en síðan þá hefur faraldurinn farið stigvaxandi. Og vöxturinn hefur haldist í hendur við fylgisaukningu Bidens samkvæmt flestum könnunum. Hann náði mest um tíu prósentustiga forskoti á Trump en það hefur dregið saman með þeim síðustu vikur. Samkvæmt stjórnmálavefritinu FiveThirtyEight, sem tekur saman kannanir á landsvísu, mælist Biden nú með tæp 50 prósent en Trump rúm 42. Flestir spá því Biden sigri eins og staðan er núna, en nú eru um áttatíu dagar til kosninga, sem verða þriðja nóvember, og því getur ýmislegt breyst. Biden leiðir í fimm af sex helstu barátturíkjunum, Flórída, Wisconsin, Michigan, Pennsylvaníu og Arizona.

Biden með sömu sigurlíkur og Hillary

FiveThirtyEight birti fyrstu niðurstöður spálíkans síns í vikunni en það metur sigurlíkur Bidens nú 71 prósent, sem eru nákvæmlega þær sömu og Hillary Clinton á kjördag fyrir fjórum árum. Þann sama dag gaf reiknilíkan New York Times Hillary 99 prósent sigurlíkur. Það ber því að taka öllum könnunum með fyrirvara. En Allan Licthman sagnfræðiprófessor hefur birt sína spá, en hann hefur spáð rétt fyrir um úrslit forsetakosninga í Bandaríkjunum síðustu fjóra áratugi. Hann byggir það á kerfi sem hann kallar lyklana að Hvíta húsinu, en það nær meðal annars til efnahagsástandsins, bæði til skemmri og lengri tíma, frammistöðu forsetans á erlendum vettvangi, hneykslismála og fleira.

epa08600138 US President Donald J. Trump holds a news briefing at the White House, in Washington, DC, USA, 12 August 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Allan Lichtman spáir Biden sigri, en þá yrði Trump þriðji forsetinn frá seinni heimstyrjöld til að mistakast að ná endurkjöri.

Fyrir örfáum misserum var nánast óhugsandi að innan skamms gætu Demókratar náð forsetaembættinu og meirihluta í báðum deildum þingsins, en það er nú raunhæfur möguleiki. Samhliða forsetakosningunum þriðja nóvember verður kosið til þriðjungs sæta í öldungadeildinni. Þar af eru 23 sæti sem Repúblíkanar halda en tólf sæti Demókrata. Í öldungadeildinni eru hundrað sæti og því þarf 51 til að ná meirihluta. Repúblíkanar halda nú 53 sætum en Demókratar 45, en tveir eru utan flokka. Það gæti vel farið svo að Demókratar nái meirihluta og þá væru fá ljón í veginum til að koma þeirra áherslum og kosningamálum í gegn. Þessa nutu Repúblíkanar þegar Trump náði kjöri en Demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeildinni 2018 og jafnvel er talið að þeir styrki stöðu sína þar samhliða þessum forsetakosningum. Það gætu því orðið miklar sviptingar í Washington á næstunni.

Mynd: RUV / RUV
Svona var staðan um miðjan júní, samkvæmt könnunum. Trump hefur sótt í sig veðrið síðan en Biden er enn með yfirhöndina.

James Thurber, prófessor í stjórnmálafræði við American University í Washington, hefur rannsakað samband þings og forseta hverju sinni og fjallað um þær breytingar sem verða á kosningum og kosningabaráttu í áranna rás og gefið út í ritröðinni Campaigns and Elections American Style. Hann segir líklegt að Biden sigri og Demókratar nái meirihluta í öldungadeildinni. „Þar er mjög mjótt á munum því Demókratar þurfa aðeins að vinna fjögur sæti af Repúblíkönum. Og þetta lítur alltaf verr og verr út fyrir Repúblíkana eftir því sem við færumst nær kosningum. En það þarf að fara varlega í að spá fyrir um niðurstöðuna, en þetta lítur illa út fyrir Repúblíkana núna,“ segir Thurber.

Mynd: RUV / RUV
Thurber segir að þessar kosningar verði mjög óhefðbundnar vegna faraldursins og kosningabaráttan eigi eftir að litast af hörðum persónuárásum, jafnvel harðari en áður hefur sést.

Thurber segir útlitið dökkt fyrir Repúblíkana og bæði flokkurinn og forsetinn séu í miklum vandræðum. Samkvæmt spálíkönum mælist Biden nú með 308 kjörmenn, en 270 þarf til að tryggja sér sigur. „Samkvæmt spálíkönum er Biden með 308 örugga kjörmenn, og þá eru ríkin þar sem spennan er mest undanskilin. Það þarf 270 til að tryggja sér sigur og forsetinn er með 187 örugga núna, þannig að hann er í miklum vandræðum,“ segir Thurber. Eitt sæti Demókrata er þegar fallið þeim í skaut og líklegt að Doug Jones nái ekki endurkjöri fyrir Demókrataflokkinn í Alabama. Þar verður spennan því síst minni en í forsetakosningunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Donald Trump hefur margoft ítrekað andstöðu sína við póstkosningar og hefur viðurkennt að hafa dregið úr fjárframlögum til póstsins, til að gera framkvæmd þeirra erfiðari.

Trump hefur reynt ýmislegt til að snúa baráttunni sér í vil. Hann sagði um mánaðamótin að réttast væri að fresta kosningunum vegna faraldursins, en dró fljótlega í land, því jafnt pólitískir samherjar sem andstæðingar tóku tillögunni fálega. Þá hefur hann margoft rætt andstöðu sína við póstkosningar, en vegna faraldursins verða kjörseðlar sendir heim til milljóna kjósenda, sem Trump segir bjóða upp á mestu kosningasvik sögunnar. 

Mörg vandamál fylgja póstkosningu

Trump segir að með þessum hætti verði niðurstaðan aldrei áreiðanleg og Bandaríkjunum til skammar. Thurber tekur ekki undir það en segir að faraldrinum fylgi mörg erfið vandamál sem þurfi að leysa. Póstkosningin leysi mörg þeirra en ný verði til. Það eigi til dæmis eftir að taka mun lengri tíma að fá staðfest úrslit nú en áður. „Forsetinn hefur efast um að það sé örugg leið til þess að kjósa. Og það er vissulega svo. Það eru engar rannsóknir sem staðfesta umfangsmikið kosningasvindl þegar kosið hefur verið með þessum hætti. Aðalspurningin er hvort pósturinn ráði við að koma kjörseðlum til kjósenda í tæka tíð, og hvort að þeir berist til kjörstaða áður en talningin hefst.“

Aukin kjörsókn með póstkosningu

Samkvæmt samantekt New York Times stefnir í að 75 prósent kjósenda geti greitt atkvæði án þess að mæta á kjörstað í ár, sem eru fleiri en nokkru sinni fyrr. Það er ekki síst kórónuveirufaraldurinn sem spilar þar inn í, en ríkisstjórar fjölda ríkja hafa rýmkað reglurnar og nú er það svo að í níu ríkjum fá allir á kjörskrá sendan kjörseðil í pósti. Í 42 ríkjum Bandaríkjanna verður hægt að greiða atkvæði án þess að fara á kjörstað, en í átta þeirra þarf að finna aðrar skýringar en faraldurinn til að komast hjá því að fara á kjörstað. Þetta verður líklega til þess að kjörsókn eykst, en hún hefur farið vaxandi síðustu ár, og flestir á því að það komi Demókrötum betur.

epa08596535 United States President Donald Trump speaks during a news conference in the James S. Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 10 August 2020. Trump was abruptly ushered out of the briefing room by Secret Service after shots were reportedly fired in the area.  EPA-EFE/Stefani Reynolds / POOL
 Mynd: EPA-EFE - CNP POOL
Trump lét sem ekkert væri framan af faraldrinum og farsóttin hyrfi innan skamms en raunin er önnur.

Búist er við að 80 milljónir kjörseðla berist með pósti í ár, helmingi fleiri en í síðustu kosningum. Kjörsóknin jókst til muna í forvölum vetrarins, mest í ríkjum sem gerðu kjósendum það hvað einfaldast að greiða atkvæði. En þessu eiga eftir að fylgja vandamál. Í flestum ríkjanna má ekki telja atkvæði fyrr en kjörstöðum er lokað og því tefst talning og allt ferlið til muna. Breytinga hefur verið óskað en það er óvíst hvort þær verða samþykktar og því gæti kosninganóttin orðið löng og jafnvel tekið nokkrar vikur að fá skýra niðurstöðu, sem Trump hefur ekki viljað staðfesta að hann ætli að virða. „Það er mikil áskorun fyrir lýðræðið í Bandaríkjunum þegar sitjandi forseti segist ekki viss um hvort hann ætli að virða niðurstöðu kosninguna og hvort það sé verið að reyna hindra kjósendur í að kjósa með beinum hætti, fyrir utan það sem tengist póstkosningunni,“ segir Thurber. 

Andvaraleysi Trumps smitast út í samfélagið  

Og þetta er að mörgu leyti skiljanlegt af hálfu forsetans. Í hans huga gekk líklega allt samkvæmt áætlun í byrjun árs. Honum hafði tekist margt af því sem hann lagði upp með og hafði náð að fylgja eftir áherslum margra hægrimanna í Bandaríkjunum, að draga úr ríkisútgjöldum, meðal annars með því að gera hagstæðari viðskiptasamninga. Og sömuleiðis í varnarmálum, með því meðal annars að þrýsta á önnur ríki Atlantshafsbandalagsins að leggja meira til NATÓ. Það var því margt sem gekk vel, og því líklega sárt þegar efnahagurinn dalaði vegna faraldursins. Trump reyndi hvað hann gat til að láta sem ekkert væri framan af, farsóttin hyrfi innan skamms án þess að gripið yrði til harðra aðgerða. En þetta hefur komið í bakið á honum. Um allan heim gengur illa að fá fólk til að taka farsóttina alvarlega, og að fylgja sóttvarnatilmælum yfirvalda. Það er ekki síst þess vegna sem framferði Trumps hefur verið gagnrýnt, því aðgerða- og andvaraleysi hans þegar kemur að sóttvörnum hefur smitast út í samfélagið.

epa08602218 Healthcare worker Carmen Kennett (R) conducts a COVID-19 test on a patient displaying cold and flu like symptoms at a popup COVID-19 testing clinic at a dental clinic in Ballarat, Victoria, Australia, 14 August 2020. New COVID-19 testing sites will be opened in Victoria's major regional centres as reports emerge over the identity of 'patient zero' for the state's deadly second wave.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Bandaríkin hafa farið verst allra ríkja út úr farsóttinni til þessa.

Í Bandaríkjunum er fjórðungur staðfestra smita á heimsvísu og nærri 170 þúsund hafa látist, margfalt fleiri en í nær öllum ríkjum heims. Þar er önnur bylgja faraldursins enn í vexti á meðan Trump hvetur til þess að skólastarf hefjist. Hann vill að efnahagslífið nái fyrri styrk sem fyrst og að nemendur geti hafið hefðbundið nám því börn séu svo gott sem ónæm fyrir sjúkdómnum og dreifi veirunni ekki eftir að hafa smitast.

Hópsýkingar í mörgum skólum

Þetta er í hróplegri mótsögn við þá staðreynd að síðastliðinn mánuð hafa rúmlega eitt hundrað þúsund börn greinst með Covid-19 í Bandaríkjunum. En það er rétt hjá Trump að þau veikjast alla jafna ekki alvarlega. Börn eru nú um tíu prósent allra þeirra sem hafa smitast og allra síðustu daga, eftir að skólastarf hófst í ríkjum þar sem smitum fjölgar enn hratt, hafa komið upp hópsýkingar í skólum, meðal annars í Georgíu og Flórída.  

Farsælast fyrir Biden að halda sig til hlés

Á meðan Trump heldur fjöldafundi hefur Joe Biden reynt að gera allt þveröfugt við Trump. Hann er með andlitsgrímu við öll tækifæri, fer varla út úr húsi og hefur að mestu sinnt sinni kosningabaráttu í gegnum netið. Jim Thurber segir að líklega sé þetta farsælast fyrir Biden, að halda sig til hlés á meðan Trump á í fullu fangi með faraldurinn. „Hann er að sýna getuleysi sitt í að stjórna, að mínu mati, sérstaklega þegar kemur að faraldrinum. Þetta er þekktur frasi; ef þú ert í baráttu við einhvern, ekki í standa í vegi fyrir honum á meðan hann heldur áfram að klúðra öllu.“

epa08598123 An undated handout photo made available by the Biden Harris Campaign shows former US Vice President and presumptive Democratic candidate for President Joe Biden with California Senator Kamala Harris, released after the campaign announced that Biden has chosen Kamala Harris as his vice presidential running mate, (issued 11 August 2020). The two are scheduled to appear together at an event in Wilmington, Delaware, USA, on 12 August 2020.  EPA-EFE/BIDEN CAMPAIGN / ADAM SCHULTZ HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - BIDEN HARRIS CAMPAIGN
Joe Biden tilkynnti um val sitt á varaforsetaefni á miðvikudaginn. Öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris varð fyrir valinu.

Þessu hömruðu bæði Biden og Kamala Harris á í vikunni, í fyrstu ræðum þeirra eftir að Biden valdi Harris sem varaforsetefni sitt. Harris sagði að veiran hefði haft mikil áhrif á nánast öll ríki Bandaríkjanna. En það sé ástæða fyrir því að Bandaríkin hafi farið verr út úr faraldrinum en önnur þróuð ríki. Það sé vegna þess að Trump hafi ekki tekið faraldurinn alvarlega frá byrjun. Hann hugsi meira um sjálfan sig en kjósendur sína. 

„Núna hefjast árásirnar“

James Thurber segir að val Bidens á Harris hafi ekki komið á óvart, en það sé óvíst hvernig það eigi eftir að reynast, því hún sótti hart að honum í forvalinu. „Harris var öruggt val því þú vilt velja einhvern sem hefur farið í gegnum kosningabaráttu og ég held að hún hafi ýmsa styrkleika sem hann hefur ekki. Hún þekkir ekki vel til utanríkis- og varnarmála, eða viðskiptasamninga. Þetta þekkir Biden vel, og hefur mikla reynslu þar. En ég held að hún verði sterkur frambjóðandi. Og núna hefjast árásirnar,“ sagði Thurber en viðtalið var tekið á miðvikudagskvöld, skömmu eftir að Harris var valin. Og þess var ekki langt að bíða að árásirnar hæfust.

Fáir gagnrýndu Biden jafn harkalega og Harris

Repúblíkanar segja Harris róttækan vinstrisinna sem myndi strax hækka skatta og draga úr framlögum til varnarmála. Trump sjálfur hefur ýtt undir kenningar um að mögulega sé Harris ekki kjörgeng og ólögmætur frambjóðandi vegna greinar bandarísku stjórnarskrárinnar um ríkisborgararétt. Vitnað er í stjórnarskrárgreinar um að enginn nema sá sem fæddur er í Bandaríkjunum, eða innfæddur, geti gegnt embætti á skrifstofu forseta. Þetta er túlkunaratriði sem áður hefur verið deilt um, og þá var það skýrt að allir sem fæddir eru í Bandaríkjunum, séu Bandaríkjamenn. Þetta rímar við kenningar um fæðingarvottorð Baracks Obama, fyrrverandi forseta, en margir efuðust um fæðingarstað forsetans, meðal annars Trump sjálfur. Trump segist fagna valinu á Kamölu Harris en en furða sig á því á sama tíma, því fáir hafi gagnrýnt Biden jafn harkalega og hún.

epa08600049 Senator Kamala Harris, seen on a monitor at The White House, after she was introduced as Joe Biden's Vice Presidential nominee, Washington, DC, USA, 12 August 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Harris gæti vel orðið næsta forsetaefni Demókrata.

Trump segir að Harris eigi eftir að klúðra öllu og hann hlakki til kappræðna hennar og Mike Pence varaforseta. Demókratar binda vonir við að Harris bæti upp fyrir það sem Biden skortir. Hann er traustur en ekki mjög heillandi sem frambjóðandi og hefur ekki alltaf gengið vel að fylkja fólki að baki sér. En hann nær vel til verkafólks og vonast er til að Harris geti hjálpað til með að ná til fleiri hópa, til kvenna, þeirra sem eru dökkir á hörund og unga fólksins. Allt hópa sem Hillary Clinton mistókst að virkja nógu vel síðast. 

Harris gæti orðið næsta forsetaefni Demókrata

Flokksþing Demókrataflokksins hefst á mánudaginn í Wisconsin og þar átti Biden að taka formlega við útnefningu flokksins. En hann ætlar áfram að sinna kosningabaráttunni að heiman og mætir ekki í eigin persónu á flokksþingið. Þar tekur Kamala einnig við útnefningu flokksins sem varaforsetaefni en nái þau kjöri verður hún fyrsta konan til að gegna embættinu. Það sem meira er, Biden er 78 ára og situr því í mesta lagi eitt kjörtímabil og Harris gæti því vel orðið næsta forsetaefni Demókrata.

epa08599872 US President Donald J. Trump with Vice President Mike Pence and Kellyanne Conway as they participate in 'Kids First: Getting America's Children Safely Back to School' event in the East Room of the White House, in Washington, DC, USA, 12 August 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL

 

En hvað er tekist á um í þessari óvenjulegu kosningabaráttu? Hvað skiptir kjósendur mestu og hver eru eða verða helstu kosningamálin? Þetta er enn dálítið óljóst. Trump fær mikla athygli í fjölmiðlum og mikill tími fer í að fjalla um viðbrögð annarra við orðum hans. Hann hefur aðlagað aðferðafræði bisnessmannsins að stjórnmálum, og hefur ítrekað beitt þessari samningatækni, eins og hann kallar það, til dæmis í viðskiptadeilum: að setja fram óraunhæfar kröfur sem gjarnan fylgja ýmsar blammeringar, og draga síðan úr til að ná fram ásættanlegri niðurstöðu fyrir Bandaríkin. Í þessari leikjafræði Trumps týnist oft mergur málsins, og honum hefur verið legið á hálsi fyrir þetta, jafnvel af flokksmönnum í Repúblíkanaflokknum - áherslur hans í kosningabaráttunni séu ekki nógu skýrar og hann þurfi að bæta úr, því sífellt fleiri flokksbundnir Repúblíkanar segja nú líklegra en áður að kjósi Biden.

Úrbætur á kerfislægri kynþáttahyggju eitt stærsta málið 

Biden gengur vel á ýmsum kjörlendum Repúblíkana, til dæmis í nokkrum Miðvesturríkjanna, Arizona og Texas. Þá lítur út fyrir að Biden gangi vel í Flórída, Michigan og Wisconsin, allt ríkjum sem Trump vann síðast. Þetta er ekki síst að þakka velgengni hans meðal eldri hvítra kjósenda með litla menntun, en þessi hópur var einna hrifnastur af Trump síðast. Þá hefur Biden mikið fylgi meðal innflytjenda og þeirra sem eru dökkir á hörund, og þar bætir Harris hans stöðu til muna. Eitt stærsta kosningamálið verður án efa úrbætur á kerfislægri kynþáttahyggju. Mikil mótmælabylgja hófst eftir dauða George Floyds í vor og hún stendur enn, en komið hefur til átaka milli lögreglu og mótmælenda í Seattle, Portland og Chicago núna undanfarið.

Allar kosningabaráttur eiga sér sitt vopn

Thurber segir að þetta eigi eftir að lita kosningabaráttuna, og Trump eigi eftir að halda áfram þar sem frá var horfið fyrir síðustu kosningar. „Kosningabaráttur eru stríð. Og öll stríð eiga sér sitt vopn. Vopnið sem kom öllum að óvörum síðast var Twitter, þegar Trump nýtti sér samfélagsmiðla og beitti þeim af mikill hörku. En hvað verður hans vopn í þessari kosningabaráttu? Handahófskennd reiði,“ segir Thurber og hlær. Hann segir að Trump eigi erfitt með að staðsetja sig og sín áherslumál en hans kosningateymi eigi eftir að ná áttum og ná vopnum sínum að nýju. Núna virðist sem svo að Trump skjóti bara út í loftið. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig tilraunir stjórnenda samfélagsmiðlanna til að fjarlægja röng ummæli hans eigi eftir að leggjast í kjósendur, en líklega eigi það inngrip, ásamt mótmælabylgjunni og faraldrinum, einna stærstan þátt í fylgistapi hans, samkvæmt könnunum. 

Rannsókn Durhams gæti haft áhrif

En því fer fjarri að úrslitin séu ljós þótt Biden sé í forystu. Og ýmislegt gæti hrist upp í baráttunni, núna á allra næstu dögum. William Barr dómsmálaráðherra boðar ný tíðindi af rannsókn bandaríska dómsmálaráðaráðuneytisins á tildrögum Rússarannsóknarinnar svokölluðu og hvernig hún var tilkomin. Hún snéri að því hvort Rússar hefðu reynt að hafa áhrif á niðurstöður síðustu forsetakosninga, og Barr boðar nýjar vendingar í rannsókn saksóknarans Johns Durham á allra næstu dögum. Þær gætu komið Trump vel í baráttunni, og nýst honum til frekari árása á þá sem sögðu hann sjálfan hafa staðið í vegi fyrir réttvísinni. Þá var staðfest að Rússar hefðu reynt hvað þeir gátu til að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna, en ekki sannað að Rússar hefðu unnið með Trump og hans mönnum eða öfugt. 

Fyrst og fremst kosið um Donald Trump

En á meðan Trump verður í eldlínununni heldur Joe Biden sig heima. Það hefur hann gert undanfarið en gæti hæglega misstigið sig þegar hann mætir Trump í kappræðum. Núna snúast þessar kosningar að mestu um Donald Trump og hvort hann hafi það sem til þarf til að gegna einu valdamesta embætti heims áfram. Á meðan svo er, og á meðan Joe Biden og Kamala Harris gera engin alvarleg mistök á lokasprettinum eiga þau góðan möguleika á að koma Trump úr embætti og gera hann að þriðja forseta Bandaríkjanna sem mistekst að ná endurkjöri, síðastliðna átta áratugi. 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi