Hlaup í Grímsvötnum ekki yfirvofandi

15.08.2020 - 11:09
Skáli og mælitæki Jöklarannsóknarfélags Íslands ´á Grímsfjalli. Grímsvötn í baksýn. Sólsetur. Júní 20250.
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
GPS-tæki Veðurstofunnar sýna að íshellan í Grímsvötnum er tekin að rísa á ný. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúrvárvöktunar, segir þetta þýða að hlaup sé ekki yfirvofandi. Vatnsstaðan í Grímsvötnum er engu að síður há og líklegt að hlaup verði síðar á árinu.

GPS-mælar sem staðsettir eru við Grímsvötn sýndu í gær örlítið sig sem gaf vísbendingar um að hlaup væri yfirvofandi og kom vísindaráð Almannavarna saman í gær til að fara yfir gögnin.

Mælingar síðasta sólarhing sýna hins vegar að land sé tekið að rísa á ný. „Gögnin okkar benda ekki til þess að hlaup sé yfirvofandi akkúrat núna en vatnsstaðan í Grímsvötnum er mjög há og við búumst alveg við því að það komi hlaup á árinu,“ segir Kristín.

Áfram verður fylgst grannt með gangi mála og halda vísindamenn á morgun upp að Grímsvötnum til að yfirfara tæki á svæðinu. Í ljósi þessa hefur fyrirhuguðum fundi vísindaráðs Almannavarna í dag verið aflýst.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi