„Félagið er rotið inn að kjarna“

epa08604432 Lionel Messi of Barcelona reacts during the UEFA Champions League quarter final match between Barcelona and Bayern Munich in Lisbon, Portugal, 14 August 2020.  EPA-EFE/Manu Fernandez / POOL
 Mynd: EPA

„Félagið er rotið inn að kjarna“

15.08.2020 - 11:55
Uppstokkun er sögð fram undan hjá spænska stórliðinu Barcelona eftir 8-2 niðurlægingu liðsins fyrir Bayern München í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Liðið hefur aldrei tapað svo stórt í Evrópuleik.

„Við erum niður­brotn­ir og við skömm­umst okk­ar,“ sagði Gerard Piqué, varnamaður Barcelona, eftir tapið í gærkvöld. Fall liðsins úr Meistaradeildinni þýðir að Börsungar lyfta engum stórum titli á tímabilinu en slíkt hefur ekki gerst í sex ár, frá tímabilinu 2013 til 2014.

Liðið var lent 4-1 undir eftir aðeins hálftímaleik í gær en virtist þó sýna lífsmark þegar Luis Suárez minnkaði muninn í 4-2 eftir tólf mínútna leik í síðari hálfleik. Bæjarar svöruðu þó með fjórum mörkum til viðbótar þar sem Philippe Coutinho, lánsmaður Bayern frá Barcelona, skoraði tvö síðustu mörk leiksins.

Tapið er það stærsta sem liðið hefur þurft að þola í Evrópukeppni í sögunni en áður var það 6-2 tap fyrir Valencia frá því í september 1962. Liðið hefur þá ekki fengið á sig átta mörk í leik frá því að það tapaði 8-0 fyrir Sevilla árið 1946.

Pólítskt félag þar sem leikmenn stýra ferðinni

Óhjákvæmilegt þykir að þjálfarinn Quique Setien verði látinn taka poka sinn eftir gærkvöldið en hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning þegar hann tók við af Ernesto Valverde í janúar. Sömuleiðis er Frakkinn Eric Abidal, fyrrum leikmaður liðsins, sagður á útleið en hann hefur verið yfirmaður knattspyrnumála undanfarin tvö ár.

Spænski fréttamaðurinn Guillem Balague segir þó að ekki megi kenna Setien um allt sem er að hjá spænska liðinu.

„Hann var fjórði kostur félagsins þegar hann var ráðinn. Þetta var þriðji leikurinn sem hann stýrir í Meistaradeildinni á ferlinum. En það var ekki honum að kenna að hann var valinn og það sem er að gerast er ekki eingöngu honum að kenna,“ hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir Balague.

„Enginn hefur verið nægilega glöggur til að koma auga á hvað gengur á hjá félaginu. Barcelona er mjög pólítískt félag og leikmenn stýra öllu,“

Pochettino og Koeman orðaðir við stjórastólinn

Bæði Mauricio Pochettino og Ronald Koeman eru orðaðir við stjórastöðu Barcelona. Pochettino hefur verið atvinnulaus síðan Tottenham Hotspur lét hann fara síðasta haust en hann þekkir til Barcelona-borgar frá því að hann var bæði leikmaður og þjálfari hjá Espanyol í borginni til fjölda ára.

Koeman lék fyrir Barcelona árin 1989 til 1994 þar sem hann vann spænsku deildina fjórum sinnum og Meistaradeildina einu sinni. Koeman er þjálfari hollenska landsliðsins sem stendur en hefur þjálfað lið á við Ajax, Everton og Valencia á ferlinum.

Bartomeu þurfi að axla ábyrgð

Kallað hefur þá verið eftir breytingum ofar í félaginu þar sem Josep Bartomeu, forseti Barcelona, hefur hlotið mikla gagnrýni. Hann hefur sinnt þeirri stöðu frá árinu 2014 en félagið er sagt í miklum fjárhagskröggum. Fréttamaðurinn Timothy West, sem er sérfræðingur um spænska fótboltann, segir forsetann þurfa að axla ábyrgð.

„Til að gera illt verra - sem Bartomeu ber ábyrgð á - er félagið í gríðarlegum fjárhagsvandræðum sem mun gera verkefnið að styrkja hópinn í sumar nánast ómögulegt,“ segir West og bætir við:

„Raunar eru Barca frekar að reyna að selja en kaupa, og þónokkrir leikmenn, þar á meðal Ivan Rakitic, Arturo Vidal og jafnvel [Luis] Suárez, gætu verið á förum á næstu vikum,“

„Félagið er rotið inn að kjarna, og það hefst á toppnum,“ hefur BBC eftir West.