Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aðgerðasinnar handteknir í Tælandi

14.08.2020 - 14:30
epa08601031 Students attend an anti-government rally at the Srinakharinwirot University in Bangkok, Thailand, 13 August 2020. The student rally promoted a campaign to collect 50,000 signatures from voters in an effort to amend the constitution.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Baráttumaður fyrir lýðræðisumbótum í Tælandi var handtekinn í dag. Parit Chiwarak er þriðji andófsmaðurinn til að vera handtekinn þar í landi á einni viku.

Chiwarak er einn þeirra sem tekið hafa þátt í andófi þar sem krafist er umbóta á ríkisstjórn landsins, nýrrar stjórnarskrár og breytinga á lögum sem vernda konungsfjölskylduna.

Tælendingar hafa gengið í gegnum mótmæli og byltingar undanfarna áratugi. Sú síðasta var gerð árið 2014 þegar núverandi forsætisráðherra Prayut Chan-O-Cha náði völdum. Mannréttindavaktin segir hið minnsta átta aðgerðasinna sem flúðu land 2014 vera horfna.

Undanfarnar vikur hafa mótmælendur, að stórum hluta námsfólk, gagnrýnt núverandi ríkisstjórn landsins. Myndband, sem sýnir lögreglumenn tilkynna Chiwarak sakarefni hans, var birt á Facebook í morgun. Aðgerðasinninn, sem er kallaður Mörgæsin, hrópaði „lifi lýðræðið!“ um leið og honum var stungið inn í lögreglubíl.

Chiwarak er þriðji mótmælandinn sem handtekinn í þessari viku fyrir uppreisnaráróður gegn ríkinu og brot á reglum um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum.

Mótmælendur í Tælandi hafa horft mjög til Hong Kong við skipulagningu mótmæla sinna. Til að mynda er ekkert forystufólk og mótmælendur treysta á samfélagsmiðla við að koma skilaboðum sínum á framfæri.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV