Opnir fyrir fjölgun íbúða en óttast stæðaskort

13.08.2020 - 16:55
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Horft yfir Breiðholt frá Vatnsendahæð. Mynd: RÚV - Dreifikerfi
Töluverð umræða hefur skapast á Facebook síðum Breiðholtsbúa um mögulegan skort á bílastæðum verði tillögur að hverfisskipulagi fyrir Breiðholtið, sem birt var á vefnum Hverfisskipulag.is fyrr í mánuðinum, að veruleika.

Tillögurnar byggja meðal annars hugmyndum sem urðu til í samráði við íbúa og hagsmunaaðila, sem tóku vel í hugmyndir um að heimila eigendum fasteigna að skipta stærri sérbýlishúsum í tvær íbúðir og húsfélögum að byggja hæð ofan á fjölbýlishús.

Samkvæmt tillögum sem kynntar eru er gert ráð fyrir að íbúðum geti fjölgað um rúmlega 2.800 í öllum þremur hverfum Breiðholts, eða um allt að 260 íbúðir í neðra Breiðholti, 1.250 í Seljahverfi og 1.300 íbúðir í efra Breiðholti og að það verði meðal annars gert með áður nefndum aðferðum, sem og að heimilað verði að byggja íbúðarhúsnæði ofan á verslunarkjörnum í hverfunum.

Ekki er hins vegar gert ráð fyrir sambærilegri fjölgun bílastæða, þar sem markmið hverfisskipulagsins er að dempa ásýnd bílastæða í hverfunum þremur, meðal annars með fækkun stórbílastæða og eru það þessar tillögur sem umræðan hefur snúist um og virðast flestir sem þar tjá sig vera þeim ósammála. Aðrir fagna tillögum um fjölgun og fjölbreytileika

Matjurtagarða í Stekkjabakka og vetrargarð í Seljahverfi

Það eru þó ekki eingöngu byggingar og gatnagerð að finna í hverfisskipulaginu, því matjurtagarðar og vetrargarður eru einnig meðal þeirra tillagna sem þar eru settar fram.

Segir í tillögunum að sérstök áhersla verði lögð á græna innviði og borgarbúskap. Annars vegar á opnu svæði sunnan við Stekkjabakka og hins vegar á opnu svæði við Jaðarsel, austan við leikskólann Jöklaborg.

Er þar gert ráð fyrir að heimildir til borgarbúskapar, þ.e. matjurtagarða, verði rýmri en annars staðar á borgarlandinu og að leyfð verði tímabundin bygging gróðurhúsa eða garðhúsa, tenging vatns- og rafmagnslagna og afmörkun svæða með gróðri eða girðingum.

Eins á að skilgreina kyrrlát svæði í öllum hverfum Breiðholts sem ætluð eru til dvalar eða slökunar fyrir íbúa.

Hugmyndir um vetrargarð efst í Seljahverfinu, sem yrði opinn allan ársins hring, verða þá að teljast metnaðarfullar.

Skíðalyfta er á svæðinu í dag, sem hefur verið opin undanfarin ár þegar snjómagn og veður leyfir. Tillögurnar nú gera hins vegar ráð fyrir að hægt verði að hafa svæðið opið árið um kring. Þar verði þá ýmist notast við náttúrlegan snjó, snjóframleiðslu, eða svokallaða þurrskíðun (e. dry slope skiing) í fjölbreyttum brekkum og ævintýrabrautum sem yrðu formaðar sérstaklega á svæðinu.

Einnig er gert ráð fyrir að útsýnispalli verði komið fyrir efst í brekkunni með verönd, bekkjum og borðum og veitinga- og þjónustukjarna. Þar yrði líka skíða- og snjóbrettaleiga, útleiga á snjósleðum og hjólum, skíðaskóli með skíða- og brettakennslu, miðasala og veitingasala og á einkum að horfa til byrjenda og barna sem eru að læra að skíða.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi