Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Líbanska þingið samþykkti auknar heimildir hersins

13.08.2020 - 22:22
Erlent · Asía · Líbanon
epa08595842 Lebanese riot police protect themselves from stones thrown by anti-government protesters during a protest at one of the roads leading to the parliament in downtown Beirut, Lebanon, 10 August 2020. Lebanese government resigned amid continuing protests over the Beirut port explosion. Beirut governor said at least 200 people were killed in the explosion on 04 August and dozens are still missing.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Líbanska þingið samþykkti í dag að lýsa yfir neyðarástandi í landinu næstu átta daga. Með því fær herinn auknar heimildir, þar á meðal til að grípa inn í ef fólk safnast saman.

Þetta var fyrsti fundur þingsins eftir sprengingarnar mannskæðu í síðustu viku. Fundurinn byrjaði á mínútu þögn til að minnast þeirra sem létust í sprengingunum. 

Allir þingmenn, fyrir utan einn, samþykktu að lýsa yfir neyðarástandi sem veitir hernum aukin völd, svo sem til að hindra að fólk komi saman. Þá fær herinn heimild til að fara inn á heimili fólks og handtaka eða setja í stofufangelsi hvern þann sem talinn er ógna öryggi í landinu. Ef fólk gerist brotlegt verður réttað yfir því fyrir herdómstóli. Mannréttindasamtök hafa lýst yfir þungum áhyggjum af þessum auknu völdum hersins.

Mikil reiði er meðal almennings í Líbanon yfir því að tæp þrjú þúsund tonn af ammoníum-nítrati hafi verið geymd á hafnarsvæðinu árum saman, þrátt fyrir viðvaranir. 

Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna kröfðust þess í dag að framkvæmd yrði skjót og sjálfstæð rannsókn á sprengingunum. Þá lýstu þeir yfir áhyggjum af ábyrgðarleysi stjórnvalda, sem eru andsnúin alþjóðlegri rannsókn. Sérfræðingarnir eru ekki fulltrúar Sameinuðu þjóðanna en veita þeim ráðgjöf sína.