Verðlagsstofa skiptaverðs staðfestir tilvist gagnanna

12.08.2020 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verðlagsstofa skiptaverðs tók saman upplýsingar um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna vegna athugunar á máli sem var til umfjöllunar hjá nefndinni.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Verðlagsstofa skiptaverðs sendi frá sér í dag vegna ásakana Samherja á hendur RÚV um að Helgi Seljan fréttamaður hafi falsað gögn við gerð Kastljósþáttar um fyrirtækið árið 2012. Samherji sakar Helga annars vegar um að hafa vitnað í skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem var aldrei skrifuð og hins vegar um að hafa „átt við“ skýrsluna.

Verðlagsstofa skiptaverðs staðfestir að gögnin sem vísað er í í þættinum hafi verið til og í yfirlýsingunni segir að starfsmaður þar hafi tekið saman Excel-skjal með tölulegum upplýsingum úr gagnagrunnum Fiskistofu. Þar hafi tafla sýnt allan útflutning karfa frá Íslandi fyrir árin 2010 og 2011 með upplýsingum um skip, aflaverðmæti og magn. Gögnin hafi ekki verið sett fram í sérstakri skýrslu og ekki hafi verið lagt efnislegt mat á upplýsingarnar sem fram komu í skjalinu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi