Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rannsaka ónæmi þeirra sem veiktust en hafa ekki mótefni

12.08.2020 - 18:14
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir hverfandi líkur á að fólk geti veikst oftar en einu sinni af COVID-19. Fyrirtækið ætlar að rannsaka hvort þeir sem ekki mynda mótefni gegn veirunni séu samt ónæmir fyrir henni.

Í fréttum sjónvarps í gær var rætt við konu sem veiktist illa af COVID-19 í vor en óttast að veikjast aftur þar sem hún er ekki með mótefni í blóðinu. Konan hafði fengið þau skilaboð frá Embætti landlæknis að fyrst hún væri ekki með mótefni væri hætta á smiti. 

4% mynda ekkert mótefni

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að um 9% þeirra sem hafa veikst af sjúkdómnum myndi annað hvort lítið eða ekkert mótefni. 4% virðist ekki mynda nein mótefni. Kári telur þó hverfandi líkur á að fólk geti veikst oftar en einu sinni af sjúkdómnum. „Það eru engin dæmi um það sem ég veit um í heiminum - og nú hafa um sex milljón manns sýkst af veirunni, það eru sjálfsagt þrjár-fjórar milljónir sem hafa læknast - en enginn þeirra hefur sýkst aftur. Þannig að ég held líkurnar séu mjög litlar á því að þessi 4% sýkist aftur. Svo litlar að ég myndi kalla þær hverfandi,“ segir Kári.

Hann telur líklegt að þetta fólk sé verndað gegn veirunni með því að hafa myndað frumubundið ónæmi. „Það er engin ástæða fyrir þetta fólk til að vera óttaslegnara heldur en þeir sem eru með mótefni,“ segir Kári.

Íslensk erfðagreining ætlar að rannsaka hvort þeir sem veiktust en hafa ekki mótefni séu í raun ónæmir. „Við ætlum að leggja af stað í þá ferð að sýna fram á að þetta fólk sé með frumubundið ónæmi, við ætlum að ráðast í slíka rannsókn,“ segir Kári.