„Mjög ósanngjörn krafa á leikmenn“

Mynd: - / RÚV

„Mjög ósanngjörn krafa á leikmenn“

12.08.2020 - 18:59
Fótboltinn hefst að nýju hér á Íslandi á föstudag og ljóst er að fylgja þarf ströngum reglum við framkvæmdina. Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, segir margt enn óljóst en ekki sé raunhæft að leikmenn hagi lífi sínu utan fótboltans samkvæmt reglum KSÍ.

KSÍ fundaði með forráðamönnum félaga í Pepsi Max- og Lengjudeildinni í dag. Þá greindi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra frá því í dag að íþróttir með snertingu yrðu leyfðar að nýju á föstudag svo Íslandsmótið í fótbolta hefst aftur á föstudagskvöld. Tveir leikir eru þá á dagskrá í Pepsi Max-deild karla, einn leikur í Lengjudeild karla auk leikja í neðri deildum karla og kvenna.

Ítarlegar sóttvarnareglur taka þá gildi og öll félög þurfa að skipa sérstakan sóttvarnafulltrúa sem gætir þess að reglunum sé fylgt. Meðal annars þurfa allir að virða tveggja metra regluna utan vallar, í klefa og á bekknum. Liðin mega heldur ekki ganga inn á völlinn á sama tíma. Þá verða áhorfendur líklega ekki leyfðir á leikjum fyrst um sinn. Allir nema leikmenn, dómarar og þjálfarar þurfa að vera með grímu og þá er óheimilt að fagna mörkum með snertingu.

„Áskorun að geta ekki faðma félagann“

„Það er náttúrulega mikil áskorun að geta ekki faðmað félagann þegar hann setur hann í vinkilinn. Ég er svosem ekkert sammála því að það þurfi að vera þannig. Við erum með atvik í leiknum eins og hornspyrnur og aukaspyrnur og annað þar sem nándin er örugglega meiri en í einhverjum fagnaðarlátum,“ segir Arnar Sveinn Geirsson sem spilar með Fylki í Pepsi-Max deildinni auk þess að vera formaður Leikmannasamtaka Íslands.

Í reglum KSÍ er jafnframt tekið fram að leikmenn, þjálfarar og dómarar eigi að lágmarka samskipti við aðra eins og kostur er - meðal annars með því að forðast fjölmenna staði eins og verslanir, bíó og skemmtistaði. 

„Skrítin og ósanngjörn krafa“

„Það er kannski svona parturinn af þessum reglum. Eða af drögunum sem hafa verið birt af reglunum, sem maður setur stærst spurningamerki við hvað varðar leikmennina sjálfa. Að þurfa að hægja á sínu persónulega lífi og geta ekki farið í bíó, veitingastaði eða skemmtistaði eða hvað sem það er. Mér finnst það mjög skrítið og mjög ósanngjörn krafa á leikmenn og eitthvað sem í rauninni er ekki raunhæft í þeim veruleika sem við lifum við í íslenskum fótbolta,“ segir Arnar Sveinn.

Arnar segir jafnframt dæmi um að leikmenn séu ekki tilbúnir að fara að spila fótbolta aftur. „Bæði útfrá stöðu persónulegri stöðu þeirra, eða þeir eru jafnvel með veika foreldra eða eitthvað slíkt inni á heimilinu. Maður sýnir því auðvitað fullan skilning. Ég er bara ekki með nein svör við þessu samt eins og staðan er í dag og er í raun bara að bíða eftir svörum frá KSÍ með þetta,“ segir Arnar Sveinn Geirsson.