Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Macron varar Írani við afskiptum af málefnum Líbanon

Mynd með færslu
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í heimsókn í Beirút í vikunni. Mynd: EBU
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur varað Írani við afskiptum af innanlandsmálum Líbanons. Ríkisstjórn Mósambík ber jafnframt af sér allar sakir um ábyrgð á vörslu sprengifima efnisins í Beirút.

Íran hefur ítök í Líbanon

Frakklandsforseti ræddi við Hassan Rouhani Íransforseta í síma þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi þess að ríkisstjórn sem réði við ástandið í landinu kæmist til valda.

Íransstjórn hefur rík ítök í stjórnmálalífi Líbanons gegnum tengsl við Hezbolla-hreyfinguna. Hreyfingin átti sterka málsvara í fráfarandi ríkisstjórn og mikil tengsl við flokksbrot Michael Aouns forseta.

Macron í forystu skipulagningar viðbragða

Emmanuel Macron var fyrstur þjóðarleiðtoga til að heimsækja Beirút. Hann hefur sömuleiðis tekið að sér eins konar forystuhlutverk við skipulagningu viðbragða alþjóðasamfélagsins við áhrif sprengingarinnar ógurlegu á samfélagið í Líbanon. Um liðna helgi stóð hann fyrir ráðstefnu sem aflaði ríflega 250 milljón evra framlags til aðstoðar við Líbani.

Ráðherrar verða yfirheyrðir

Tilkynnt hefur verið að saksóknari í Líbanon hyggist yfirheyra nokkra fyrrverandi ráðherra landsins næstu daga. Sá fyrsti sem yfirheyrður verður er Ghazi al-Aridi, fyrrverandi ráðherra opinberra framkvæmda.

Mósambík ber af sér sakir

Ríkisstjórn Mósambík hefur andmælt allri ábyrgð á sprengingunni 4. ágúst síðastliðinn. Augum hefur verið beint þangað því allt ammoníumnítrat sem geymt var í vörugeymslu við höfnina í Beirút átti að flytjast þangað.

Aldrei varð af því heldur lá það óhreyft árum saman frá því að einkafyrirtæki í Mósambík, Fabrica de Explosivos de Moçambique, pantaði efnið frá Georgíu 2013. Fyrirtækið framleiðir sprengiefni en ammoníumnítrat er einmitt notað við slíka framleiðslu ásamt áburðargerð.

Rangt að einblína á efnið sjálft

Talsmaður ríkisstjórnar Mósambík segir rangt að einblína á efnið sjálft heldur ástæður hinnar langvarandi geymslu þess við höfnina í Beirút. Að sögn talsmannsins átti biðin eftir efninu ekki að vera löng en þegar ljóst var að það væri ekki væntanlegt endurnýjaði mósambíska fyrirtækið pöntun sína.

Undanfarin ár hafa minnst fjögur tonn ammoníumnítrats farið um hafnir í Mósambík og þar í landi hafa engin óhöpp orðið. Að sögn talsmanns ríkisstjórnarinnar verður allt gert til að koma í veg fyrir viðlíka stórslys og varð í Beirút.