
Kallað eftir djúpstæðum umbótum í Líbanon
Meðal þeirra ríflega 170 sem létust í sprengingunni 4. ágúst síðastliðinn var þýskur stjórnarerindreki. Fjöldi erlendra sendimanna hefur sótt borgina heim til að sýna stuðning vegna þessa versta áfalls Líbanons á friðartímum.
Umbóta er sannarlega þörf
Heiko Maas kallar eftir djúptækum efnahagsumbótum í Líbanon líkt og Emmanuel Macron gerði í síðustu viku.
Kveðjuathafnir og jarðarfarir þeirra sem létust héldu áfram í dag. Staðfest er að tíu slökkviliðsmenn fórust í sprengingunni og sex er enn saknað. Fjölskyldur þeirra óska þess heitast að geta kvatt þá með viðeigandi hætti.
Sjúkrahús í lamasessi
Meira en helmingur sjúkrahúsa Beirútborgar er óstarfhæfur að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þar af eru þrjú stór sjúkrahús og þrjú önnur sem ráða illa við hlutverk sitt.
Iman Shankiti, fulltrúi stofnunarinnar í Líbanon, segir gjörgæsludeildir og önnur sjúkrarými enn hýsa fólk sem varð illa úti í sprengingunni. Það ásamt fjölgun kórónuveirusmita í landinu valdi þessu alvarlega ástandi á sjúkrahúsum í borginni.
Mótmælum linnir ekki
Mikil mótmæli halda áfram í borginni þar sem brotthvarfi ráðandi stjórnmálaafla er krafist. Þeim er kennt um að hafa skapað aðstæðurnar sem ollu sprengingunni miklu.
Undanfarna mánuði hafa mótmælendur lítt haft sig í frammi. Nú þyrpist fólk út á götur Beirút á ný, veifandi gálgum og snörum til marks um hugarfar þess til stjórnmálamanna landsins.
Hugað að arftaka Diabs
Afsögn Hassans Diab forsætisráðherra vakti bjartsýni um umbætur í stjórnmálum hjá sumum en aðrir óttast að gömul andlit birtist á ný. Þar á meðal hefur Saad Hariri fyrrverandi forsætisráðherra verið nefndur. Hann þurfti að víkja sæti eftir harðvítug mótmæli á síðasta ári.
Erlend ríki á borð við Frakkland renna hýru auga til Nawhafs Salam, tæplega sjötugs fyrrverandi dómara við Alþjóðadómstólinn. Hezbollah-hreyfingin, sem er valdamikil í Líbanon, telur hann langt í frá góðan kost að sögn dagblaðsins Al-Akhbar.
Búist er við að þing Líbanon komi saman á fimmtudag til að staðfesta neyðarástand í landinu og til að tryggja að öryggissveitir geti haft hemil á mótmælendum.