Hundruð dauðsfalla vegna rangra upplýsinga um COVID

12.08.2020 - 17:29
epa08597813 A nurse organizes positive samples of coronavirus from plasma donor patients, at the District Institute of Science, Biotechnology and Innovation in Health, in Bogota, Colombia, 11 August 2020. Colombian researchers working on a treatment with 'convalescent plasma' achieved encouraging results in a pilot study to treat patients with COVID-19.  EPA-EFE/Carlos Ortega
 Mynd: EPA-EFE - EFE
800 manns hið minnsta létust á fyrstu þremur mánuðum þessa árs vegna rangra upplýsinga um kórónuveiruna COVID-19. Læknatímaritið American Journal of Tropical Medicine and Hygiene segir um 5.800 manns hafa þurft á sjúkrahúsaðstoð að halda vegna rangra upplýsinga á samfélagsmiðlum.

Breska ríkisútvarpið BBC fjallar um málið og segir marga hafa látist eftir að hafa drukkið metanól eða hreingerningavökva sem inniheldur alkóhól og taldi fólkið ranglega að vökvinn innihéldi lækningu gegn veirunni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur áður sagt að „upplýsingafaraldurinn“ í kringum COVID-19, með samsæriskenningum, kjaftasögum og smitskömm hafi breiðst álíka hratt út og veiran sjálf. Allt hafi þetta átt sinn þátt í að fjölga dauðsföllum og skaða.

Í greininni kemur fram að mörg fórnarlambanna hafi fylgt eftir ráðum sem líktust trúverðum heilbrigðisupplýsingum, til að mynda að neyta hvítlauks eða vítamíntaflna í miklu magni til að koma í veg fyrir smit. Aðrir drukku ýmis efni, til að mynda kúahland, og segja vísindamennirnir slíkar gjörðir „mögulega hafa haft alvarleg áhrif“ á heilsu þeirra sem slíkt gerðu.

Er það mat greinarhöfunda að það sé á ábyrgð alþjóðastofnana, stjórnvalda og samfélagsmiðla að berjast gegn slíku „upplýsingafaraldri“. Samfélagsmiðlar og hugbúnaðarfyrirtæki hafa sætt umtalsverðri gagnrýni fyrir að vera sein að bregðast við og hafa viðbrögð þeirra verið sögð brotakennd.

BBC segir að athugun sem breska ríkisútvarpið framkvæmdi hafi leitt í ljós tengsl við árásir, íkveikjur og andlát sem rekja megi til rangra upplýsinga um veiruna.

Þannig leiddu kjaftasögur á netinu til hópárása á Indlandi og hópeitrana í Íran. Starfsmenn fjarskiptafyrirtækja hafa sætt hótunum og orðið fyrir árásum og kveikt hefur verið í símamöstrum, til að mynda í Bretlandi, vegna samsæriskenninga sem hafa svo blásið upp og þeim fjölgað á netinu.

Loks má nefna að samfélagsmiðlar hafa einnig hjálpað svikurum að selja ýmsan varning sem fullyrt er að verji gegn veirunni og hafa kraftaverkalyfin í sumum tilfellum verið lítið annað en útþynntur klór.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi