Gera ráð fyrir nánu samtali við lífeyrissjóðina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir enn stefnt að því að ljúka 29 milljarða hlutafjárútboð í þessum mánuði með mikilli aðkomu lífeyrissjóða og upplýsingar verði sendar til hluthafa á næstu dögum.

Icelandair tilkynnti á á ellefta tímanum í gærkvöldi að samningar hefðu tekist við alla kröfuhafa.

Bogi sagði í samtali við fréttastofu Icelandair enn gera ráð fyrir að ljúka verkefninu í þessum mánuði. Fyrirtækið eigi þó lausafé til eitthvað lengri tíma. „Við höfum verið að fljúga nokkuð síðustu vikur og höfum ná í kannski meiri tekjur inn í félagið heldur enn við gerðum ráð fyrir, til dæmis í maímánuði. Þannig að staðan er þokkaleg hvað það varðar. Við höfum úthald eitthvað áfram,“ segir hann.

Búið er að semja við alla lánardrottna um að laga afborganir að tekjum og greiðslugetu félagsins. Bogi segir að engar kröfur hafi verið afskrifaðar og engum kröfum breytt í hlutafé. Enn á eftir að ljúka samningum við ríkið um að ábyrgjast lánalínur hjá Landsbankanum og Íslandsbanka, að því gefnu að hlutafjárútboðið takist vel.

Að sögn Boga er forsendan fyrir lánalínu stjórnvalda sú að útboðið klárist. Hann segir þetta þó allt þurfa að vinnast saman þar sem fjárfestar þurfa einnig að vita hvernig lánalínan lítur út. „Það er samt forsenda hjá stjórnvöldum að útboðið klárist,“ bætir hann við.

Icelandair gerir ráð fyrir að það verði aðallega innlendir aðilar sem taka þátt í hlutafjárútboðinu. „Við erum með fókusinn þar,“ segir hann og svarar því játandi að gert sé ráð fyrir nánu samtali lífeyrissjóðina.

Endar eins og allir góðir samningar

Icelandair tilkynnti líka í gærkvöldi að endanlegt samkomulag um bætur hefði náðst við flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Bogi segir Icelandir vera tiltölulega ánægð með samninginn.

„Þetta endar eins og allir góðir samningar með því að báðir aðilar eru tiltölulega ánægðir með niðurstöðuna,“ segir hann. Bótafjárhæðin sé hins vegar trúnaðarmál.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi