Vantar heildarúttekt á áhrifum opinna landamæra 

11.08.2020 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: VR
Efnahagskerfi heimsins og ekki síst heilbrigðiskerfi ríkja heimsins ráða mjög misjafnlega vel við veirufaraldurinn. Þetta segir Guðrún Johnsen, hagfræðingur og efnahagsráðgjafi VR. Hagsmunir ferðaþjónustunnar hér á landi hafi verið kortlagðir en síður hagsmunir annarra starfsgreina. Gera þurfi heildarúttekt á áhrifum opinna landamæra á Ísland. 

Hagsmunir ferðaþjónustunnar kortlagðir

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í heilsuhagfræði, og Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, hafa gagnrýnt þá ákvörðun stjórnvalda að hafa landamærin ekki lokuð. Þau segja áhættuna með því meiri en ávinninginn af því að hafa meira frelsi innanlands.

Guðrún er einnig hagfræðingur hjá Rannsóknastofnuninni CEP í Sviss

Hún bendir á að það sem betur hefði mátt fara sé greining á heildaráhrifum þess að opna landið eða heildaráhrifum þess að hópsýking tæki sig upp að nýju á Íslandi.  „Það er ljóst að hagsmunir ferðaþjónustunnar voru kortlagðir vel en kannski síður annarra starfsgreina og atvinnugreina."

Það hafi til dæmis víðtæk áhrif ef loka þurfi skólum. Breskar rannsóknir hafa sýnt að 16% vinnuafls þurfi að leggja niður störf ef skólum verður lokað. Af því sé bæði beinn kostnaður fyrir foreldra og óbeinn kostnaður sem fylgi brotinni skólagöngu, flosnun frá námi og fleira. 

„Það er einn anginn sem maður heyrir lítið talað um og virðist ekki hafa verið haft neitt samráð við þegar ákvörðun var tekin að opna landamærin. " 

Heildarúttekt eykur traust á stjórnvöldum

Nú sé verið að bera Ísland saman við þau lönd sem gerðu engar tilslakanir, til dæmis Nýja-Sjáland þar sem engin smit komu upp í um hundrað daga. Ekki þurfi að gera mikla tölulega greiningu til að gera sér grein fyrir ábatanum af því gagnvart öllum þjóðfélagsþegnum

Guðrún segir að gera hefði þurft heildarúttekt á áhrifum þess að opna fyrir flæði ferðamanna. Betur hafi þurft að standa að því, ekki síst til að tryggja friðinn í kjölfarið á ákvörðuninni. „Eftir að ákvörðun er tekin þá skapast tiltekið traust gagnvart stjórnvöldum ef þau sýna fram á að þau hafi sýnt áhuga á hagsmunum annarra aðila heldur en bara ferðaþjónustunnar."  

Veirufaraldur dregur galla fram í dagsljósið  Veirufaraldurinn hefur haft mismunandi áhrif á efnahag og heilbrigðiskerfi hinna ýmsu landa. Guðrún segir að ytra áfall eins og veirufaraldurinn sé hvalreki fyrir þá sem hafa áhuga á efnahagsstjórnun og hvernig hún nær sem víðtækustum árangri. Glögglega sést hvernig tekist hefur til í Bandaríkjunum þar sem heilbrigðiskerfið er einkarekið að stærstum hluta. Þar sjái atvinnurekendur fólki fyrir heilbrigðisþjónustu.

„Til að tryggja góðan rekstur hjá einkareknum aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu hefur hið opinbera ekki fjárfest nægilega í lýðheilsustofnunum og slíku. Þannig að afleiðingin af þessu, þegar svona faraldur leggst yfir allan heiminn og þar sem þarf að segja fólki upp og vinnustöðum lokað með valdboði jafnvel, að þá hefur starfsmaðurinn ekki í nein hús að venda varðandi heilbrigðisþjónustu."

Veiran ýtir undir ójöfnuð

Efnahagsþrengingar sem nú eiga sér stað komi til með að hafa áhrif á hegðun kjósenda og hvaða lausnir stjórnmálamenn komi með í kjölfarið. Veiran grafi líklega frekar undan þeim sem eru með lág laun og auki frekar á ójöfnuð milli þeirra sem verða að mæta til vinnu og þeirra sem geta unnið heiman frá sér. Ójöfnuðurinn skipti miklu máli. 

„Við vitum að ef við búum í fimm manna þorpi og bara einn á allan peninginn að þá verður ekki mikill hagvöxtur og hagsæld mun dala. Það er það sem maður óttast út frá heildrænu tilliti, að ójöfnuður er óheppilegur og hann dregur úr hagsæld heildarinnar allrar og jafnvel þeirra sem eiga peninga því að hætta er á félagslegum óstöðugleika og þá stjórnmálalegum óstöðugleika í kjölfarið, þegar mennirnir finna fyrir því að þeir njóti ekki sömu tækifæra og eru ef til vill útilokaðir frá sumum mörkuðum bara í ljósi þess að hafa verið svo óheppnir að fæðast ekki inni í tilteknar fjölskyldur eða eitthvað slíkt."

Viðbrögð hins opinbera

Guðrún segir að afkoma vinnandi fólks fari mjög eftir því hvernig viðbrögð hins opinbera verða, hvort hið opinbera telur sig hafa efni eða ekki efni á að koma til bjargar og í hvaða formi sú aðstoð ætti að vera.

„Frakkar hafa til að mynda hafa stigið mjög fast niður og hið opinbera ætlar sér að fylla upp í það skarð sem hefur myndast í framleiðslunni með fjárframlögum ríkisins. Og þó er franska ríkið miklu skuldsettara heldur en það íslenska."

Einnig verði að horfa á möguleika launafólks til framtíðar, að það missi ekki af tækifærum til að mennta sig vegna þess að skólum var lokað. 

„Nú er mjög alvarlegt ástand í Bandaríkjunum þar sem skólar eru að koma saman og sumir skólar sem eru einkareknir hafa svigrúm til þess að halda nægilegri fjarlægð milli stúdenta og geta opnað dyrnar sínar, á meðan hinir opinberu skólar geta ekki gert það. Og þá hefur það áhrif á hæfni fólks þegar til lengra lætur og hættu á að það flosni úr námi."

Kortleggja þarf kostnaðinn

Guðrún segir að á þessum tímapunkti þurfi stjórnvöld að einbeita sér mjög að því að greina hver kostnaðurinn er af þeirri áhættu sem verið er að taka núna vegna ferðamanna.  „Kortleggja í það minnsta kostnaðinn af því að halda landamærunum opnum og hvort hægt er að fara bil beggja, að halda úti einhvers konar skipulögðum ferðum sem eru einangraðar, fyrir erlenda ferðamenn."

Tvennt skiptir máli. „Það er að koma böndum á útbreiðslu sjúkdómsins, það er fyrsta forgangsatriði, og næsta er að undirbúa það ef ekki tekst að ná böndum, að þá að gæta þess að heimilin verði ekki fyrir alvarlegum skakkaföllum þannig að það myndist hér meiri ójöfnuður eða glötuð tækifæri fram veginn."  

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi