Útlit fyrir að við séum að ná böndum á faraldurinn

11.08.2020 - 16:44
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Sóttvarnalæknir segir að ekki komi á óvart að lagt sé til að Ísland fari á lista í Noregi yfir svokölluð rauð lönd. Hann bendir á að nokkur smit hér á landi vegi mun þyngra en í fjölmennari löndum. Hann telur að það sé að takast að ná böndum á faraldurinn hér. Þá ættu smitum að fækka hratt og líklegt að Ísland verði fljótt tekið af rauðum listum.

Íslandi fari á rauðan lista

Í gær lagði Lýðheilsustofnunin í Noregi til að Ísland yrði sett á rauðan lista. Það þýðir að þeir sem fara héðan til Noregs verða að vera í 10 daga sóttkví eftir komuna til Noregs. Um miðjan júní byrjuðu Norðmenn að meta lönd út frá smithættu. Evrópulöndin eru annað hvort rauð eða græn. Þeir sem koma frá grænu landi þurfa ekki að fara í sóttkví. Upphaflega var gert ráð fyrir að listinn yrði að minnsta kosti uppfærður með 14 daga millibili. Síðustu vikur hefur uppfærslan verið talsvert örari. Nýjasti listinn er frá því á laugardag. Á honum er Ísland litað grænum lit, einnig tilteknir landshlutar í Svíþjóð. Mið-Evrópulöndin eru græn en þó ekki Tékkland og Króatía. Frakkland, Spánn og Portúgal eru á rauða listanum.

Í tíu daga sóttkví

Skilyrði fyrir því að komast á græna listann eru að staðfest smit sé undir 20 á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur og að jákvæðar niðurstöður skimana séu undir 5 prósentum. Að auki er lagt mat á stöðuna í viðkomandi landi þar sem tekið er tillit til meðal annars þróunar smittalna og annarra atriða sem geta skipt máli. Ísland er enn yfir þessum mörkum sem Norðmenn setja. Í gær og í fyrradag var nýgengi innanlandssmita hér um 27 á hverja 100 þúsund íbúa en er komið niður í 24,8 samkvæmt tölunum sem birtar voru í dag. Talan lækkar vegna þess að í gær greindist ekkert smit innanlands. Nýgengi á landamærunum er nú 4,6 en var í gær 3,5. Talan hækkar vegna þess að í gær greindust þrjú virk smit á landamærunum. Samanlögð nýgengistala Íslands núna er 29,4.

Stjórnvalda að ákveða

Norsk heilsuyfirvöld leggja til að Ísland verði fært yfir í flokk rauðra landa. Hins vegar er það heilbrigðisráðuneytið sem tekur endanlega ákvörðun um það, nákvæmlega eins og hér heima. Lýðheilsustofnun leggur fram tillögur og svo er það stjórnvalda að taka ákvörðun. Norska utanríkisráðuneytið ráðleggur Norðmönnum almennt að ferðast ekki til annarra landa nema nauðsyn krefji. Ef Ísland fær rauða stimpilinn þýðir það að Norðmenn sem koma hingað verða að fara í 10 daga sóttkví þegar þeir koma heim aftur.

Önnur lönd sem norsk heilsuyfirvöld leggja til að metin verði rauð eru Malta með tæplega 60 smit á hverja 100 þúsund íbúa, Holland, Pólland, Kýpur og Færeyjar. Þar hefur smitum fjölgað hratt og eru nú 205 á hverja 100 þúsund íbúa. Einnig er lagt til að tilteknir landshlutar í Svíþjóð fari á rauða listann. Í Danmörku fær Sjáland rauðan lit en þó ekki höfuðborgarsvæðið. Mið-Jótland verður rautt. Fram kemur að daglega sé lagt mat á stöðuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þórólfur Guðnason

Útlit fyrir að við séum að ná böndum á faraldurinn

Hvernig metur Þórólfur Guðnason stöðuna? Finnst honum líklegt að Ísland fara á rauða listann hjá Norðmönnum? Hann segist ekki vita það.

„Ég hef hins vegar fengið fyrirspurn frá kollega mínum í Noregi um faraldurinn sem geisar hér. Á hverju hann byggist og hver skoðun okkar um að hann muni stoppa,“ segir Þórólfur. Hann muni gefa raunsannar upplýsingar og svo verði bara að sjá hvað Norðmenn gera. Hann segir að tillaga Norðmanna hafi í sjálfu sér ekki komið á óvart. „Norðmenn hafa verið með mjög vel skilgreinda skiptingu á því hvað þeir telja til áhættulanda. Þeir hafa miðað við 20 smit á hverja 100 þúsund íbúa en við eru komin upp í 30. Þannig að það þarf ekki að koma á óvart að þeir leggi þetta til.“

Eystrasaltslöndin hafa sett Ísland á rautt. „Ég vil bara benda á það að nokkur smit hér á landi vega miklu þyngra en nokkur smit til dæmis í Noregi eða öðrum stórum löndum. Mér sýnist vera útlit fyrir það að við séum að ná böndum á þennan faraldur. Þá ætti þessi tala að lækka mjög hratt og ef að þessar þjóðir eru sjálfum sér samkvæmar að þá ættu þær að setja okkur fljótt inn aftur,“ segir Þórólfur.  

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi