Undarlegt hljóð truflar Akureyringa - „viðvarandi sónn“

11.08.2020 - 21:33
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Torkennilegt lágtíðnihljóð hefur gert mörgum íbúum á Akureyri lífið leitt að undanförnu. Uppspretta hljóðsins er ókunn en ýmsar kenningar eru á kreiki.

Varð létt þegar hann komast að því að hann væri ekki einn

Það var tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sem vakti máls á hljóðinu í færslu á Facebook í gær en hljóð virðist sérstaklega hátt þessa dagana.

Færslan vakti töluverða athygli og stigu fjölmargir fram sem töldu sig kannast við hljóð dularfulla. Eyþóri Inga Jónssyni, organista var létt þegar hann komst að því að hann væri ekki einn um að heyra hljóðið.

„Ég spurði konuna mína hvort hún heyrði þetta hljóð hún heyrði þetta, já hún heyrir þetta líka. Undanfarið hef ég bara haldið að ég væri eitthvað klikkaður, alltaf að heyra þennan tón,“ segir Eyþór. 

„Eiginlega ólýsanlega pirrandi“

Kristján Edelstein tónlistarmaður hefur heryt hljóðið vel undanfarna daga. 

„Það er eiginlega ólýsanlega pirrandi, það er eiginlega eina orðið yfir það. Þetta er viðvarandi sónn sem breytir ekki um tónhæð. Ég veit það ekki en það eina sem ég veit er að ég er búinn að vera svefnvana yfir þessu núna í tvær nætur og búinn að tala við fjölmarga og það eru allir sammála um að þetta er alltaf sami sóninn,“ segir Kristján. 

Heyrðist vel við Akureyrarkirkju

Ýmsar kenningar eru með Akureyringa um uppruna hljóðsins og hvar í bænum það heyrist.  Fréttamaður heyrði hljóð til dæmis nokkuð vel við Akureyrarkirju þó svo að ekki tækist að hljórita það. 

„Við hjónin tókum rúnt um daginn og vorum svona að reyna að finna upptökin en það er erfitt en það eru kenningar uppi, allskonar kenningar. Allt frá skipsmöstrum í Vaðlaheiðargöngin þar sem einhver sónn myndast og berst síðan yfir, “ segir Kristján. 

Heilbrigðiseftirlitið kallar eftir ábendingum

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segir að málið verið kannað. 

„Það er alveg sjálfsagt að bregðast við þessu og í sjálfum sér er góð hjálp allstaðar að vel þegin, þannig að ef við fáum vel rökstuddar ábendingar þá hjálpar það okkur,“ segir Alfreð. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi