Þögn sló á Beirút kl. 15:09 í dag að íslenskum tíma, til að minnast þeirra tæplega tvö hundruð sem talið er að hafi látist í sprengingunni miklu í síðustu viku.
Tímasetningin er ekki valin af handahófi. Það var á nákvæmlega þeirri mínútu þann 4. ágúst sem 2750 tonn af ammoníumnítrati leystu úr læðingi þá gríðarlegu orku sem skildi stóran hluta borgarinnar í rústum eða stórskemmdan.
Opinberar tölur sýna nú að 171 lést í sprengingunni, sex þúsund slösuðust og 300 þúsund urðu heimilislaus.
Ekki er talið líklegt að afsögn ríkisstjórnar Líbanons í gær muni friða mótmælendur í borginni. Að sögn fréttaritara BBC í Beirút óttast almenningur að nýr forsætisráðherra verði valinn úr sömu klíku og kom landinu á þá vonarvöl sem það er nú.