Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Engir fundir í Herjólfsdeilu

Guðbjartur Ellert Jónsson og Jónas Garðarsson
 Mynd: Aðsent - Samsett mynd
Engir fundir hafa verið hjá forsvarsmönnum Herjólfs og Sjómannafélags Íslands eftir að þriggja daga verkfalli félagsmanna þar var aflýst 20. júlí en þá náðist samkomulag um að hefja viðræðuáætlun um gerð nýs kjarasamnings undirmanna um borð í Herjólfi. Þeim viðræðum á að vera lokið næstkomandi mánudag og Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélagsins segir að vonandi hittist aðilar innan tíðar, tíminn sé skammur.

Boðaðar höfðu verið þrjár vinnustöðvanir undirmanna á Herjólfi. Sú fyrsta hófst 7. júlí og stóð í sólarhring. Sú næsta var 14. júlí, hún stóð í tvo sólarhringa og þá ákváðu rekstraraðilar Herjólfs að sigla Gamla Herjólfi eða Herjólfi 3. til að ferðir á milli lands og Eyja féllu ekki niður.

Sú þriðja var svo fyrirhuguð í þrjá sólarhringa og átti að hefjast á miðnætti 21. júlí. Henni var aflýst áður en til hennar kom, fyrst og fremst að frumkvæði skipverjanna sjálfra sem vildu ekki hafa áhrif á ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum. 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segist eiga von á að fundir hefjist síðar í þessari viku. „Það þurfti að hleypa mönnum í sumarfrí. En ég er viss um að við ljúkum þessu með góðri niðurstöðu fyrir 17. ágúst; ég er bjartsýnn á það.“

Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segist ekkert hafa heyrt frá forsvarsmönnum Herjólfs. Spurður hvort hann telji líklegt að samkomulag náist fyrir tilsettan tíma sagðist hann ekkert geta sagt um það. Hvað gerist ef þið hafið ekki náð samkomulagi 17. ágúst? Skellur þá á vinnustöðvun að nýju? „Það þyrfti að boða hana fyrst með tilteknum fyrirvara.“

Kemur það til greina? „Ég get ekki greint frá því sem við höfum verið að ræða. En það er verið að ræða ýmsar leiðir innan félagsins.“

Kröfur Sjómannafélagsins fólu meðal annars í sér færri vinnustundir á mánuði og að áhöfnum Herjólfs yrði fjölgað úr þremur í fjórar. Forsvarsmenn Herjólfs sögðu þessar kröfur jafngilda 25% launahækkun sem ómögulegt væri að verða við. Þegar vinnustöðvuninni var aflýst 20. júlí sagði Jónas í samtali við Fréttastofu RÚV að engar kröfur hefðu náðst fram.

Spurður hvort hann telji líklegra að aðilar nái saman nú en þá segir hann ómögulegt að segja til um það. „Það hefur ekkert breyst. Það er bara þannig.“