
Borgarstjóri Farsund varar við ferðum til Óslóar
Arnt Abrahamsen borgarstjóri Farsund kveður í samtali við VG hættuna af ferðalagi til höfuðborgar Noregs jafngilda heimsókn til Svíþjóðar eða annars rauðmerkts lands.
„Ferðalag til Óslóar skapar mikla hættu á að smitast af Covid-19 og að smita aðra við heimkomu,“ segir borgarstjórinn.
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað mjög í Noregi undanfarið og landið væri skilgreint sem rautt svæði ef ekki væri fyrir ferðatakmarkanir.
Sífellt fleiri ungar manneskjur smitast
Bent Höie heilbrigðisráðherra Noregs sagði á blaðamannafundi í dag að ungt fólk hefði frekar en aðrir gleymt þeim ráðum sem gefin hafa verið til að halda aftur af smiti.
Æ fleiri ungar manneskjur smitast í landinu og það megi rekja til fjörugs skemmtanalífs og hunsunar á fjarlægðartakmörkunum.
Fjöldi fólks þarf í sóttkví í Haugasundi
Í vesturhluta Noregs hafa heilbrigðisyfirvöld í Haugasundi beðið nokkur hundruð manns sem heimsóttu næturklúbb í borginni um helgina að hafa samband.
Fleiri hundruð gestir næturklúbbsins þurfa að fara í sóttkví því tveir barþjónar sem þar starfa hafa greinst með kórónuveiruna. Nokkur ótti var uppi um að atvik af þessu tagi gæti átt sér stað en nú íhugar sveitarfélagið að loka næturklúbbum á svæðinu.