160 ár frá fæðingu Sólons í Slúnkaríki

Mynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar / .

160 ár frá fæðingu Sólons í Slúnkaríki

11.08.2020 - 15:58

Höfundar

Á fimmtudaginn í síðustu viku voru liðin 160 ár frá fæðingu Sólons Guðmundssonar sem var kenndur við Slúnkaríki á Ísafirði. Sólon var verkamaður, alþýðuskáld og skapandi húsasmiður, en Þórbergur Þórðarson gerði honum skil í Íslenskum aðli sem kom út árið 1938.

Í stuttri færslu á Wikipediu kemur fram að Sólon hafi verið verkamaður og furðuskáld, einsetukarl og furðulegur í háttum. Hann var einna þekktastur fyrir bæinn sinn Slúnkaríkið sem stóð í hlíðinni fyrir ofan Krókinn á Ísafirði. „Sólon var alþýðumaður. Hann var niðursetningur sem barn og það er hvergi skráð hverra manna hann er,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir sem rekur galleríð Úthverfu á Ísafirði og er mikil áhugakona um Sólon. „Hann fæddist 1861 og ólst upp á fósturheimilum fyrstu tvo áratugi ævi sinnar en gerðist síðan sjómaður. „Hann var stór og sterkur, greindur vel og húmoristi, og mjög hjartahlýr. Hann var frekar fámáll og ekki allra, en mjög frjór í hugsun,“ segir Elísabet og bætir við það sé alrangt að hann hafi verið einrænn.

Sólon var ráðinn til amerískra lúðuveiðimanna sem gerðu út frá Dýrafirði í tólf ár og talið er að hann hafi farið með þeim til Bandaríkjanna og dvalið þar milli vertíða. Sólon settist svo að á Ísafirði í kringum aldamótin 1900, þegar hann var um fertugt, og bjó þar til æviloka 1931. Hann keypti sér landskika og byggði húsið sitt Slúnkaríki og vann hin og þessi störf. „Hann var hamhleypa til verka og svo útlimalangur að handleggirnir náðu niður fyrir hné, mjög skrítin hlutföll,“ segir Elísabet.

Húsið hans vakti strax mikla athygli. „Það var með alls konar útskotum og skreyti. Byggt úr torfi og grjóti að neðan en timbri að ofan. Það var hægt að ganga hringinn og það voru fleiri en einn inngangur. Svo hengdi hann utan á þetta rellur og stormfleyga til að kljúfa vindinn. Hann málaði þetta svo með sérkennilegu munstri sem ég held að hljóti að hafa komið frá frumbyggjum, sem hann hefur kynnst í Ameríku.“ Þá hafi líka alltaf verið mikið af hljóðum í rellunum sem ætlað var að hræða burtu illa anda. Elísabet segist ekki vita hvaðan orðið slúnkur komi. „Hann samdi vísur sem hann kallaði sjálfur skrýtlur. Þar eru mörg furðuleg orð sem hann hefur búið til.“

Sólon var mikill að vexti og gríðarlega útlimalangur. Mynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Á sínum tíma var húsið rifið og í dag er lítið sem ekkert á svæðinu sem minnir á veldi Sólons Guðmundssonar í Slúnkaríki. „Hins vegar eru hugmyndir um að endurreisa húsið og fá til liðs við okkur nema í arkitektúr,“ segir Elísabet. Sólon var fátækur en naut engu að síður virðingar í samfélaginu á Ísafirði og var ávallt fylginn sér. „Þegar hann deyr 71 árs er jarðarförin mjög fjölmenn, eins og það væri verið að fylgja höfðingja til grafar. Ári seinna er gefið út lítið kver af Guðmundi Geirdal kennara, Sólon í Slúnkaríki allur, ljóðabálkur um hann.“

Þórbergur Þórðarson kom einhverju sinni til Ísafjarðar og vildi ólmur hitta Sólon, sem hann skrifar síðan um í Íslenskum aðli. „Það hefur eiginlega bjargað sögu hans. Þó sumir séu gagnrýnir á þetta og finnst Þórbergur hafa fært eitthvað í stílinn þá heldur þetta minningu hans á lofti. Þórbergur vildi líka að það yrðu gefnar út vísurnar hans, og sagði þær betri en flest af því sem samtímamenn hans væru að yrkja,“ segir Elísabet sem telur það líka löngu tímabært, eitthvað af vísunum sé til hér og þar en hafi aldrei verið safnað saman og þær gefnar út með almennilegum hætti.

Mynd með færslu
 Mynd: Hreinn Friðfinnsson - .
Úthverfa hús Hreins Friðfinnssonar í Hafnarfjarðarhrauni.

Miklu síðar uppgötvar SÚM-arinn Hreinn Friðfinnsson Sólon þegar hann les um hann í Íslenskum Aðli og nýtir persónu og hans og hugmyndafræði sem innblástur í myndlist sína. „Þegar Sólon er orðinn gamall og þreyttur selur hann Slúnkaríki og byrjar að byggja sér elliheimili, sem hann kallar svo, lítinn kofa. Hann sneri öllu við í þessum kofa, bárujárnið var að innan og veggfóðrið að utan. Sjálfur sagði hann að veggfóðrið væri svo fallegt að það ætti að vera þar sem flestir gætu séð það.“ Hreinn heillaðist af þessari hugmyndafræði og byggði árið 1974 eins konar úthverft hús í Hafnarfjarðarhrauni, sem hann sagði hýsa allan heiminn nema sjálft sig. Hann hélt svo áfram með þetta verkefni og gerði þrjú hús til viðbótar, þar á meðal eitt í Frakklandi, og kallaði The House project og telst nú til hans frægustu verka.

Verk Hreins Friðfinnssonar hafa nýverið verið til sýnis í Gallerí Úthverfu á Ísafirði sem Elísabet stýrir, en nafnið er einmitt vísun í áðurnefnt „elliheimili“ Sólons. „Þar sýndum við saman húsin hans Hreins og Slúnkaríki. Í sumar kom svo mikið af Íslendingum og það var svo gaman að segja þeim sögu Sólons.“ Þó húsið sé löngu farið mætti segja að Slúnkaríkið lifi enn, en listamenn svæðisins hafa endurlífgað það og haldið nafninu á lofti. „Slúnkaríkið var stofnað af myndlistarfélaginu á Ísafirði í þessu sama rými og við erum með Úthverfu nú. Það flutti síðan í Edinborgarhúsið sem er menningarmiðstöðin á Ísafirði.“

Björn Þór Sigbjörnsson ræddi við Elísabetu Gunnarsdóttur á Morgunvaktinni.

Tengdar fréttir

Myndlist

Listaverki Ólafar lokað tímabundið

Menningarefni

Handteknir fyrir þjófnað á Bataclan-verki Banksy

Myndlist

Heillandi að týnast í blekkingarleik málverksins

Tónlist

Íslenskt listafólk færir hafið inn í miðja Berlín