Marie-Claude Najm, dómsmálaráðherra Líbanons, sagði af sér í morgun. Hún er þriðji ráðherrann sem segir af sér frá því á laugardag. Hún hafði áður lagt til að öll ríkisstjórnin færi frá.
Ríkisstjórnarfundur verður eftir hádegi og búist er við að tilkynni stjórnin ekki að hún fari frá völdum verði lögð fram vantrauststillaga á þingi. Nú hefur verið staðfest að meira en 200 fórust í sprengingunum í Beirút á þriðjudag í síðustu viku.
Marwan Abboud, borgarstjóri Beirút, segir að tuga annarra sé saknað. Mörg þeirra séu erlendir borgarar sem hafi unnið í Líbanon. Mótmæli voru í Beirút í gær og krafist var gagngerra breytinga á stjórnkerfi landsins.