Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

KSÍ var reiðubúið að senda leikmenn í læknisskoðun

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KSÍ var reiðubúið að senda leikmenn í læknisskoðun

10.08.2020 - 16:12
Knattspyrnusamband Íslands sendi beiðni til heilbrigðisráðuneytisins í síðustu viku þar sem óskað var eftir undanþágu frá nándartakmörkunum og sótthreinsun búnaðar í æfingum og keppni í knattspyrnu. KSÍ taldi mikilvægt að láta reyna á hvort hægt væri að stunda hér æfingar og keppni í knattspyrnu án þess að það leiddi til smits. Meðal þess sem KSÍ var reiðubúið að skoða var að leikmenn gengust undir læknisskoðun. Glasgow Celtic gæti þurft að leika við KR utan Skotlands

Sóttvarnalæknir upplýsti á fundi almannavarna í dag að til skoðunar væri að leyfa íþróttir með snertingu, líkt og knattspyrnu, eftir 13. ágúst.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði KSÍ jafnframt vera tilbúið að setja mjög strangar reglur til að hægt yrði að spila og æfa fótbolta hér á landi.  Þær reglur birtust síðdegis í dag og segir KSÍ að markmið þeirra væri að lágmarka áhættuna á að þátttakendur í knattspyrnu smitist af COVID-19. Meðal reglna er að leikmönnum verði bannað að fagna með snertingu og ekki verður leyft að hrækja á völlinn.

Í undanþágubeiðni KSÍ, sem fréttastofa fékk afhenta í dag, kemur fram að ekki hafi komið upp smit hjá iðkendum á Íslandi við æfingar eða keppni. Ekki hafi heldur borist fréttir um slíkt frá nágrannaþjóðum.

Meðal þeirra reglna sem KSÍ var reiðubúið að setja má nefna að fjarlægðarviðmið verði á varamannabekkjum og í búningsklefum. Andlitsgrímur verði notaðar og allur búnaður sótthreinsaður. 

Þá verður leikmönnum bannað að nota sameiginlegan búnað eins og drykkjarílát auk þess sem fjöldi starfsmanna á hverjum leik verður takmarkaður.  „Þá er KSÍ reiðubúið að skoða önnur úrræði sé talin þörf á slíku, svo sem reglubundnum læknisskoðunum,“ segir í undanþágubeiðninni.

KSÍ bendir á að fimm íslensk lið hafi verið í pottinum þegar dregið var í evrópukeppnum félagsliða. Fáist ekki heimild til að leika knattspyrnu hér á landi fyrir 18. ágúst geti liðin neyðst til að leigja keppnisvelli erlendis og skipuleggja leiki sína þar með tilheyrandi kostnaði og umstangi.  

KR dróst meðal annars á móti skoska stórliðinu Celtic en þar hafa yfirvöld ekki tekið ákvörðun um hvort KR-ingum verði hleypt til landsins, að því er fram kemur á vef skoska The Sun. Gangi það ekki eftir eru fjögur lönd sem UEFA hefur valið sem hlutlaus: Grikkland, Kýpur, Ungverjaland og Pólland.

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Bannað verði að fagna með snertingu