Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hækka Kíribatíeyjar til að verjast hækkandi sjávarborði

10.08.2020 - 05:51
Mynd með færslu
Tarawa, höfuðeyja og höfuðborg Kiribati. Um 260 kílómetrar eru á milli hennar og Nonouti, en þaðan lagði ferjan upp. Leitarsvæðið er því afar stórt en hefur þrengst nokkuð eftir að björgunarbátur fannst. Mynd: Lýðveldið Kiribati
Taneti Maamau, forseti eyríkisins Kíribatí í sunnanverðu Kyrrahafi, ætlar að leita fulltingis Kína og fleiri vinveittra þjóða við að reisa eyjarnar hærra yfir sjávarmál. Þannig hyggst hann verja ríki sitt fyrir vaxandi ágangi sjávar, sem rekja má til hækkandi sjávarborðs af völdum hlýnunar Jarðar.

Samspil dýpkunar og uppfyllingar

Maamau, sem nýlega var endurkjörinn forseti þessarar 110.000 manna eyþjóðar suður í höfum, lýsir þessum áformum sínum í viðtali við breska blaðið Guardian. Þar segist hann hafa sett sér það markmið að verja eyjarnar fyrir ágangi sjávar og kjarninn í því ætlunarverki er hækkun eyjanna, einkum með umfangsmiklum, samræmdum dýpkunar- og uppfyllingarframkvæmdum.

„Áætlanir liggja þegar fyrir um að byggja upp [aðaleyjuna] Tarawa með því að sækja uppfyllingarefni í botn meginlónsins,“ segir forsetinn. „Í 20 ára framtíðarplönum Kíribatís er einnig að finna áætlun um að tryggja okkur dýpkunarpramma sem munu nýtast okkur við þessa framkvæmd, og líka til að dýpka sund og skurði á ytri eyjunum.“

Langar brýr í stað manngerðra eiða

Forsetinn segir samstarf hafið við Haf- og loftslagsrannsóknastofnun Nýja Sjálands um að þróa langtíma öryggisáætlun fyrir strandlengju Kíribatís. Auk þess að stækka og hækka eyjarnar með landfyllingum, gerðum úr efni sem sótt er í botn meginlónsins og víðar að af hafsbotninum, á mögulega að byggja brýr þar sem nú eru manngerð eiði.

Ytri eyjar eða rif Kíribatí tengjast aðaleyjunni Tarawa - og samnefndum höfuðstað ríkisins - með vegi sem liggur um manngerð eiði. Um leið og þetta er mikil samgöngubót veldur þetta ýmsum vanda, því eiðin eru talin ýta undir tíð flóð í höfuðstaðnum og herða á strandrofi.

Langar stöplabrýr myndu að líkindum leysa bæði vandamál. Kínverjar hafa mikla þekkingu og reynslu af því að byggja langar brýr af því tagi, sem helst koma til álita, og eru því hinn ákjósanlegasti samstarfsaðili við slíkt verk.

Vill engin risalán frá neinu landi

Um fjármögnun þessa risavaxna verkefnis segist Maamau ætla að leita hófanna víða en ekki þiggja risavaxin lán „frá nokkru landi.“ Þá segist hann heldur engin áform hafa um að launa Kínverjum hugsanlega aðstoð með því að leyfa þeim að koma upp flotastöð á Jólaeyju, um 2.000 kílómetra suður af Hawaii.

Af þessu hafa Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra haft nokkrar áhyggjur, eftir að Maamau gerði það að stefnumáli sínu í kosningunum að hætta samskiptum við Taívan og taka upp viðskipti við Kína í staðinn.