Fjögur smit bættust við í gær

10.08.2020 - 11:11
Innlent · COVID-19 · Skimun · Smit
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali
Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, bæði við skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við landamærin greindist eitt virkt smit og jákvæð niðurstaða fékkst úr einni skimun þar sem beðið hafði verið eftir mótefnamælingu. 938 eru í sóttkví. Tveir eru á sjúkrahúsi og einn á gjörgæslu. Beðið er eftir niðurstöðu mótefnamælingar úr einu sýni.

Stærstur hluti þeirra sem eru í sóttkví er búsettur á höfuðborgarsvæðinu, eða 639. Þar á eftir kemur Suðurland, þar sem hundrað eru í sóttkví.

Alls voru greind 3.161 sýni í gær. Sýkla- og veirufræðideild Landspítala greindi 173, við landamærin voru þau 2.929 og Íslensk erfðagreining greindi 59 sýni.

Í fyrradag greindust þrjú innanlandssmit og ekkert við landamæraskimun. Daginn þar áður greindust þrjú innanlandssmit og tvö virk smit við landamæraskimun. 

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. hversu mörg smit hafa greinst á hverja 100.000 íbúa undanfarna 14 daga, er nú 25,9 en var 27 í gær. Nýgengi landamærasmita er nú 3,5, en var 3,0 í  gær.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi