Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fimm gómaðir við utanvegaakstur

10.08.2020 - 17:03
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Skemmdir eftir utanvegaakstur í Kerlingafjöllum.  Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Upp hefur komist um utanvegaakstur fimm ökumanna í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi síðustu daga. Tveir þeirra eru erlendir ferðamenn á mótorhjólum sem voru sektaðir fyrir akstur utan vega við Lakagíga 4. ágúst. Landverðir létu lögreglu vita af þessu athæfi mótorhjólamannanna og voru þeir stöðvaðir á Kirkjubæjarklaustri.

Akstur þriggja annarra á Sprengisandsleið í gær er til skoðunar hjá lögreglu. Lögreglumenn við hálendiseftirlit höfðu afskipti af mönnunum sem höfðu ekið um 15 metra út fyrir veg og áð þar til að borða nestið sitt. Í tilkynningu á vef Lögreglunnar á Suðurlandi segir að landverðir hafi rakað yfir hjólförin hið snarasta til að aðrir ákveði síður að fara eftir hjólförunum sömu leið. Málið á leið til ákærusviðs.