Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áhrifamaður í stjórnarandstöðu handtekinn í Hong Kong

10.08.2020 - 02:11
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
Hong Kong media tycoon Jimmy Lai, founder of the local newspaper Apple Daily, arrives outside a district court in Hong Kong, Monday, July 13, 2020. Activists including Lai who organized the June 4th Tiananmen massacre memorial this year, appeared in a Hong Kong court on Monday on charges of inciting others to participate in an unlawful assembly. (AP Photo/Vincent Yu)
Útgefandinn Jimmy Lai á leið í réttarsal í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Jimmy Lai, fjölmiðlamógúll og einn helsti leiðtogi lýðræðis- og sjálfstæðissinna í Hong Kong hefur verið handtekinn, ákærður fyrir ólöglegt samstarf við erlend öfl. Ákæran er gefin út á grundvelli umdeildrar öryggislöggjafar, sem Peking-stjórnin innleiddi í borgríkinu fyrir skemmstu.

Lai, sem er 71 árs, var handtekinn í rauðabítið að morgni mánudags. Hann á fleiri kærur yfir höfði sér, meðal annars fyrir að hafa skipulagt og hvatt til fjöldamótmæla aðskilnaðarsinna í borginni í fyrra.

Lögmaður Lais og fréttamiðill hans, Apple Daily, greindu frá handtökunni í kvöld. Samkvæmt Apple Daily var sonur Lais einnig handtekinn. Báðum er þeim gefið að sök að hafa átt í ólöglegu samstarfi við erlend öfl og/eða ríki.

Kosningum frestað og sjálfstæðissinnum meinuð þátttaka

Landsstjórnin í Hong Kong frestaði á dögunum fyrirhuguðum kosningum í borginni. Þær áttu að fara fram í september, en landsstjórnin frestaði þeim um eitt ár og vísaði til COVID-19 faraldursins sem ástæðu. Um leið var hins vegar frambjóðendum aðskilnaðarsinna meinað að taka þátt í kosningunum að ári. 

Skammt er síðan Bandaríkjastjórn greip til refsiaðgerða gagnvart Carrie Lam, leiðtoga landsstjórnar Hong Kong, og öðrum háttsettum embættismönnum þar í borg, vegna framgöngu þeirra gagnvart stjórnarandstæðingum og fylgispektar við Pekingstjórnina. Þær fela meðal annars í sér frystingu á öllum eignum þeirra í Bandaríkjunum og meina þeim að eiga nokkur viðskipti við bandarísk fyrirtæki.