
Yfir fimm milljónir kórónaveirusmita í Bandaríkjunum
Samtals hafa nú rúmlega 19,6 milljónir manna smitast af kórónaveirunni sem veldur COVID-19, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans bandaríska. Um 725.000 manns hafa dáið úr sjúkdómnum en næstum í tólf milljónir náð heilsu á ný. Vestanhafs geisar farsóttin enn af miklum þunga, einkum í Bandaríkjunum, Brasilíu og Mexíkó, sem eru þau þrjú ríki þar sem flestir hafa týnt lífi.
Sjá einnig: Brasilía: Yfir 100.000 dauðsföll og 3 milljónir smita
En sóttin sækir víðar í sig veðrið því á Indlandi eru staðfest smit orðin 2,15 milljónir. Þar breiðist veiran hratt út; yfir 60.000 tilfelli greinast þar á degi hverjum.
Og í Evrópu, þar sem mesti kúfurinn virtist hafa gengið yfir fyrir skemmstu er veiran nú aftur í sókn, þótt ástandinu þar verði á engan hátt líkt við það sem það var þegar verst lét eða ástandið í Vesturálfum nú.