Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Vonandi skilja menn alvöruna og bæta sig“

09.08.2020 - 21:18
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn vonast til þess að skemmtistaða- og veitingahúsaeigendur muni bæta ráð sitt eftir að upp komst um brot á sóttvarnarreglum á fimmtán af 24 stöðum sem lögreglan heimsótti um helgina. Hann segir að þó megi ekki gleymast að níu þessara staða hafi staðið sig vel.

Fallast ykkur hendur þegar þið sjáið að það er ekki verið að fara eftir neinu?

„Nei, okkur fallast ekkert hendur. Við bara drögum djúpt andann og finnum leið til að koma skilaboðunum á framfæri. Stundum þarf að grípa til harkalegra aðgerða en vonandi skilja menn alvöruna og bæta sig,“ segir Víðir. 

Hann ítrekar að allir beri ábyrgð, ekki aðeins rekstraraðilarnir. „Við berum líka ábyrgð, við megum ekki gleyma því. Við getum ekki bara verið að benda á hvert annað. Við tökum ákvörðun um að fara inn á stað sem er troðfullur af fólki og það er okkar ákvörðun.  En það er að sjálfsögðu líka á ábyrgð rekstraraðilana að tryggja það að reglum sé framfylgt eins og hægt er.“

Má búast við því eftir fjóra til fimm daga að einhverjir séu að greinast með smit sem voru hér í bænum í gærkvöld?

„Við höfum talað um að við erum með faraldur í gangi og þar af leiðandi vitum við ekkert um öll smitin. Það er alveg möguleiki. Við skulum bara vona að svo verði ekki. En núna erum við því miður að fást við dæmi úr einkasamkvæmum sem tengjast Vestamanneyjum sem við höfum verið að tala um síðustu vikuna. Við skulum vona að við verðum ekki að tala um veitingastaði í miðborginni um næstu helgi.“