Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þúsundir mótmæltu opinberum kosningaúrslitum í Minsk

09.08.2020 - 23:16
Protesters gather after the Belarusian presidential election in Minsk, Belarus, Sunday, Aug. 9, 2020. Police and protesters clashed in Belarus' capital and the major city of Brest on Sunday after the presidential election in which the authoritarian leader who has ruled for a quarter-century sought a sixth term in office. (AP Photo/Sergei Grits)
 Mynd: AP
Óeirðalögregla beitti bareflum, háþrýstidælum, táragasi og hvellsprengjum gegn mótmælendum í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, og allt að 20 borgum öðrum þegar fólk safnaðist saman til að mótmæla því sem það telur falsaðar niðurstöður forsetakosninganna sem þar voru haldnar í dag, sunnudag. Óstaðfestar fregnir herma að einn hafi látið lífið í átökum lögreglu og mótmælenda og á annað hundrað hafi verið handtekin.

Samkvæmt opinberum útgönguspám fékk forsetinn til 26 ára, Alexander Lukashenko, 79,7 prósent atkvæða en Svetlana Tikhanovskaya, sem talin var hans skæðasti keppinautur, aðeins 6,8 prósent í öðru sæti. Stuðningsfólk hennar og annarra frambjóðenda úr röðum stjórnarandstöðunnar er þess fullvisst að brögð séu í tafli og viðurkennir ekki úrslit kosninganna.

Kröftugustu mótmæli í sögu landsins

Tikhanovskaya sjálf tók í sama streng þegar hún sagðist ekki treysta opinberum atkvæðatölum. „Við höfum meirihlutann á bak við okkur,“ sagði hin 37 ára húsmóðir, sem bauð sig fram þegar Lukashenko, sem kallaður hefur verið síðasti einræðisherra Evrópu, lét handtaka eiginmann hennar, sem hugðist bjóða sig fram gegn forsetanum.

Breska blaðið The Guardian segir mótmælin í kvöld þau fjölmennustu og kröftugustu frá því að Hvíta-Rússland öðlaðist sjálfstæði. Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu seint á sunnudagskvöld segir að lögregla hafi „náð tökum á aðstæðum á ósamþykktum fjöldasamkomum“ í höfuðborginni og víðar. 

Kosningar í Hvíta-Rússlandi hvorki frjálsar né opnar

Kosningarnar í dag eru þær sjöttu í röð sem Lukashenko vinnur með afgerandi meirihluta, en þar er ekki allt sem sýnist. Sem fyrr segir er iðulega vísað til Lukashenkos sem síðasta einræðisherra Evrópu og er sú skoðun útbreidd meðal stjórnmálaskýrenda annars staðar í álfunni, að kosningar í Hvíta-Rússlandi séu allt annað en frjálsar og opnar.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, hefur reyndar ekki talið það síðustu 25 árin hið minnsta.  ÖSE var ekki með kosningaeftirlit í Hvíta-Rússlandi í dag frekar en áður, þar sem stjórnvöld þar leyfa það einfaldlega ekki, sem segir sína sögu.

Sjálfstæði eftirlitshópurinn Right of Choice hefur reynt að hafa eftirlit en 28 af eftirlitsmönnum þeirra hafa verið handteknir. Það gildir líka um nokkra mótframbjóðendur Lukashenkos, kosningastjóra og nánar samstarfskonur Tikhanovskayu og fleiri sem eru Lukashenko ekki þóknanlegir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV