Rignir inn beiðnum um undanþágur

09.08.2020 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Það rignir inn beiðnum til Almannavarna frá fólki og fyrirtækjum sem vilja fá undanþágu frá samkomutakmörkunum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að Almannavarnir væru með fjölda fólks í vinnu frá morgni til kvölds alla daga vikunnar við að svara slíkum beiðnum.

Sagði Þórólfur um tvenns konar beiðnir að ræða. Annars vegar hefðu samband fyrirtæki og einstaklingar sem vilji gera vel og eru að máta sig við reglurnar. Hinn hópurinn eru þeir sem vilja fá stimpil um undanþágu. „Þeir sem telja þetta ekki eiga alveg við sig,“ sagði hann og kvað það skiljanlegt þar sem fjöldatakmarkanirnar væru mikið fjárhagslegt spurning fyrir marga. „Þetta er þunginn í vinnunni hjá okkur þessa dagana,“ bætti hann við.

Þrátt fyrir að margir hópar telji sig geta verið til hliðar við kerfið þá sé það hlutverk almannavarna að koma fólki í skilning um að verið sé að fást við alvarlega hluti.

Skimunin ein og sér dugir ekki

Að mati Þórólfs þurfa ríki heims að gera ráð fyrir að þurfa að lifa með kórónuveirunni til lengri tíma. Háværar kröfur eru hjá sumum hópum um sterkari aðgerðir á meðan aðrir vilja fara vægar í sakirnar. Landsmenn verði að átta sig á að verði dregið úr aðgerðum þá fjölgi smitum með því sem því fylgi. Þórólfur segir því þörf á að fleiri komi inn og meti aðgerðirnar sem gripið er til. „Við þurfum að hafa skýra valmöguleika,“ sagði hann.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var einnig gestur í þættinum. Hann benti á að hópsmitin sem komið hafa upp undanfarið megi að mestu rekja til eins einstaklings. „Það eru 32 hópar sem ekki er hægt að rekja saman, en það hlýtur þó að vera eitthvað þarna á milli sem hefur flutt veiruna,“ sagði Kári.

Þetta sýni að þó að skimun gangi vel þá dugi það ekki. „Stóra spurningin er hvort að við eigum að halda svona áfram og taka áföllunum sem fylgja því þegar smit blossa upp,“ bætti hann við.

„Viljum við halda áfram að horfast í augu við miklar líkur á fleiri svona litlum faröldrum eða taka þá ákvörðun að hafa ekki ferðaþjónustu.“

Sjálfur sagðist Kári myndu velja þá leið að loka landinu og herða aðrar  takmarkanir tímabundið þar til búið væri að ráða niðurlögum núverandi hópsmita.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi