Bjarki og Guðrún Brá best allra

Mynd: GSI / GSI

Bjarki og Guðrún Brá best allra

09.08.2020 - 19:52
Bjarki Pétursson úr GKG og Guðrún Brá Björgvinsdóttir urðu í dag Íslandsmeistarar í golfi í karla- og kvennaflokki. Fjórði og síðasti hringurinn á mótinu fór fram en leikið var á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.

Bjarki Pétursson úr GKG var efstur fyrir lokahringinn á samtals níu höggum undir pari með tveggja högga forskot á næsta mann. Hann fékk einn fugl og einn skolla á fyrri níu holunum í dag og eftir skolla á elleftu braut lék Bjarki svo á als oddi. Hann fékk fimm fugla í röð og hér sjáum við hann vippa boltanum glæsilega ofan í holuna á fimmtándu braut og næla sér í einn af þessum fuglum. Rúnar Arnórsson úr Keili fékk par á lokahringnum í dag og lék hringina fjóra á samtals fimm höggum undir pari, rétt eins og Aron Snær Júlíusson úr GKG sem var annar fyrir lokahringinn. Aron Snær og Rúnar enduðu jafnir í öðru sæti.

En Bjarki Pétursson var í algjörum sérflokki á þessu Íslandsmóti. Bjarki lauk keppni í dag með því að fá sinn sjöunda fugl á loka hringnum og spilaði hann þar með á fjórum undir pari. Bjarki varð Íslandsmeistari á nýju mótsmeti, samtals á 13 höggum undir pari. Hann endaði átta höggum á undan næstu mönnum. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Bjarka.

Ragnhildur Kristinsdóttir hafði tveggja högga forskot á Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur fyrir lokahringinn í dag. Hér sjáum við Guðrúnu Brá pútta fyrir fugli á fjórtándu holu í dag. Hún setti boltann niður og náði fuglinum á sama tíma og Ragnhildur fékk skolla og spennan magnaðist. Ragnhildur hafði eins höggs forskot á Guðrúnu fyrir lokaholuna. Upphafshögg Ragnhildar fór hins vegar út í læk og hún átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum. Fyrsta högg Guðrúnar rataði hins vegar inn á flöt ekki langt frá fánanum. Guðrún Brá fékk par á lokaholunni á meðan Ragnhildur fékk skolla og þær því jafnar eftir lokaholuna, báðar á samtals einu höggi yfir pari.

Það þurfti því umspil þeirra á milli um sigurinn. Í umspilinu lenti Ragnhildur í veseni. Guðrún Brá reyndist sterkust og bar sigur úr býtum. Guðrún Brá varð þar með Íslandsmeistari kvenna í golfi þriðja árið í röð.