Ástandið þannig að lögreglan treysti sér ekki inn

09.08.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Fjöldi veitinga- og skemmtistaða  sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði í gærkvöldi þverbraut sóttvarnareglur og segir aðstoðaryfirlögregluþjónn að lögreglan hafi hreinlega ekki treyst sér inn á suma staðina vegna smithættu. Grípa verði til aðgerða.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði ástandið á 24 veitinga- og skemmtistöðum í gærkvöldi til að kanna hvort að reglum um sóttvarnir, fjöldatakmarkanir og tveggja metra regluna væri fylgt. Í ljós kom að á fimmtán af þessum stöðum var ástandið óviðunandi. Fjöldinn var slíkur að ekki var hægt að tryggja tveggja metra regluna og sum staðar ekki þverfótað fyrir fólki, hvorki  innan- né utandyra. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að á sumum stöðum var ástandið skárra.

„Það var ansi misjafnt. Sumir af þessum stöðum bera ekki hundrað manns, eru kannski bara með fimmtíu manna leyfi, en það er bara fullt út úr dyrum á sumum af þessum stöðum.“
Hvað gátu þínir menn gert, rætt við húsráðendur eða hvað?
„Við vorum búin að setja okkur það markmið að gefa okkur viku í að tala við flesta verta hérna í borginni, benda þeim á þetta og gefa þeim kost á að bæta sig. Á sumum af þessum stöðum þá treystu lögreglumenn sér ekki inn í troðninginn út af smithættu og fengu bara vertinn út til að ræða við sig.“

Hann segir að veitingamenn hafi brugðist jákvætt við og lofað bót og betrun, en svo virðist sem landinn gleymi öllu þegar hann fer út að skemmta sér og virðast vertar í vandræðum með að ráða við ástandið.

„Væntanlega þurfa þeir bara að telja inn og ákveða einhverja tölu, hvað er hæfilegt, en ekki  bara hafa opnar dyr og hleypa öllum inn.“

Að sögn Jóhanns Karls ætti að vera einfaldara fyrir veitingahús að virða fjarlægðarmörk heldur en skemmtistaði, en það virðist ekki tilfellið.

„Nei, nei við erum búin að tala við fjölmarga í vikunni og það eru alls ekki allir sem eru með það á hreinu og búnir að ganga frá því.“

Heimildir til að sekta við þessar aðstæður voru gefnar út í vor og segir Jóhann Karl tíma kominn á að beita þeim aftur og spurning hvort grípa eigi til þess að loka stöðum við þessar aðstæður. Allir ættu að þekkja reglurnar og gera sér grein fyrir ástandinu.

„En núna erum við búin að tala við marga og þetta er orðin almenn vitneskja hvað eigi að gera, þá verðum bara að fara að stíga niður fæti og taka þetta af meiri festu.“

Jóhann Karl leggur áherslu á að tveggja metra reglan sé alveg skýr.

„Það eru engar sérreglur sem gilda í miðborginni um helgar, það er alveg á tæru,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi