„Annan eins afdalabónda hef ég aldrei séð“

Mynd: Guðrún Pétursdóttir / Aðsend

„Annan eins afdalabónda hef ég aldrei séð“

09.08.2020 - 09:18

Höfundar

Guðrún Pétursdóttir heyrði viðtal við Davíð Oddsson í útvarpinu árið 1987 sem vakti hjá henni mikla reiði. Hann var að kynna áform borgarstjórnar um byggingu Ráðhússins og fannst Guðrúnu framganga hans svívirðileg og áformin svo óhyggileg að hún gekk í hóp aktívista sem mótmæltu byggingunni. Sá aktívismi átti eftir að verða mikill örlagavaldur í lífi hennar.

Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur var nýkomin heim úr námi erlendis seint á níunda áratugnum og var stödd í bíl sínum að keyra um götur borgarinnar þegar hún heyrði viðtal í útvarpinu við mann að nafni Ólafur Hannibalsson, sem hún kannaðist reyndar ekki við. Viðtalið var svo skemmtilegt að þegar hún var komin á áfangastað beið hún í bílnum frekar en að fara inn því hún gat ekki slitið sig frá viðtækinu. „Ég hugsa: Svakalega er þetta skemmtilegur maður. Það má því segja að þetta hafi verið ást við fyrstu heyrn í mínu tilfelli,“ segir Guðrún sem átti sannarlega eftir að kynnast manninum í útvarpinu betur.

Orðlaus yfir dónaskapnum í Davíð Oddssyni

Þetta var um það leyti sem áform um að byggja Ráðhúsið í Reykjavík voru í bígerð hjá þáverandi meirihluta í borgarstjórn. „Ég hafði verið mikið erlendis og ekki fylgst mikið með,“ segir Guðrún sem aftur var með kveikt á útvarpinu nokkru síðar þegar hún heyrir síður skemmtilegt viðtal. Þá er rætt við Davíð Oddsson þáverandi borgarstjóra um fyrirhugaða byggingu ráðhússins við Tjörnina. Henni leist alls ekki á hegðun borgarstjórans í viðtalinu. „Davíð var svo dónalegur og yfirgangurinn ótrúlegur,“ segir Guðrún. „Þetta er gamall skólabróðir minn og við höfðum verið í sömu kynslóð, skólafélagar um árabil. Ég hafði heyrt vini mína kvarta yfir hvað hann væri þreytandi en ég tók ekki mark á því því ég hélt þetta væri bara venjuleg flokkpólitísk andúð.“ En þegar hún hlýddi á gamla skólabróður sinn í útvarpinu varð henni ekki um sel. „Þarna heyri ég hann í eigin persónu spila út sínum spilum og ég varð gjörsamlega orðlaus yfir yfirganginum og dónaskapnum í manninum.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Guðrúnu fannst Ráðhúsið úr takti við götumyndina

Byggingin úr skala við borgarmyndina

Þetta varð til þess að Guðrún fór að kynna sér málið og leist henni alls ekki á blikuna. „Það kemur í ljós að það á að byggja þarna út í Tjörnina en þar var á þessum tíma gamalt hús með stóru gullregni. Þetta nýja hús var náttúrulega í takti við götuna, þessa götumynd sem er í kringum Tjörnina,“ segir Guðrún sem fannst allt annað en góð hugmynd að setja svona fyrirferðarmikla nútímabyggingu á þennan stað. Hún áréttar þó að hún sé áhugakona um nútíma byggingarlist. „Mér finnst mjög gaman að áræðnum nútímabyggingum en maður verður líka að virða það sem á undan fór. Þarna eigum við frá þessum lokum 19. og byrjun 20. aldar þessa gullfallegu mynd í kringum Tjörnina. Þarna er þessi stóra bygging sem er algjörlega úr skala við allar hinar.“

Taldi manninn hljóta að vera að villast

Mikil andspyrnuhreyfing varð til úr hópi fólks sem vildi koma í veg fyrir að byggingin yrði reist á þessum stað en hópurinn lagði meðal annars til að ráðhúsið fengi að rísa á hafnarsvæðinu þar sem Harpa er núna staðsett. „Það hleypur mikil kergja í málið,“ rifjar hún upp. Hópurinn tekur sig til og safnar undirskriftum um allan bæ og fær afdrep í bókabúð Snæbjarnar Jónssonar þar sem þau voru með kynningarefni um alla veggi, buðu upp á kaffi og veittu upplýsingar.

Fólk verður forvitið um starfsemi hópsins og ýmsir líta við í bókabúðina að fá upplýsingar um hópinn. Þangað álpaðist einn daginn inn maður sem Guðrún taldi af útgangi mannsins að dæma að hann hlyti að vera að villast. „Annan eins afdalabónda hafði ég aldrei á ævi minni séð. Hann hafði ekki komist í tæri við skæri í einhver ár og hann var í því sem kallað var vírúlpur. Þær voru með loðfóðri og það var hægt að opna hettuna með rennilás.“

„Það kviknar ljós í augunum á mér“

Guðrún fylgist með manninum skoða teikningar og hugsar með sér að vonandi taki einhver þennan ráðvillta mann að sér og spyrji hvort hægt sé að aðstoða hann. „Það stendur enginn upp til að heilsa þessum gesti og mér rennur blóðið til skyldunnar svo ég fær á fætur, geng til hans og segi: Viltu ekki að ég útskýri myndirnar?“ Maðurinn þiggur það og Guðrún sýnir honum Tjörnina og miðbæ Reykjavíkur og spyr hvort hann kannist við það sem er á myndunum enda taldi hún þennan mann líklegast ekki kunnugan staðháttum í borginni miðað við klæðaburð. Maðurinn svarar ekki en kinkar kolli og Guðrún greinir undrun í svip hans en heldur áfram.

„Hann var mjög kurteis og eftirtektarsamur en fámáll en svo segir hann: Ætli það sé ekki best að ég skrifi um þetta?“ rifjar Guðrún upp sem strax taldi líklegast að ef hann starfaði sem blaðamaður hlyti hann að vera að skrifa fyrir Búnaðarblaðið Frey eða einhvers konar bændablað. Hún lætur hann fá gögn og spyr fyrir hvaða blað hann sé að skrifa en verður ánægjulega brugðið þegar í ljós kemur að hann er ritstjóri Helgarpóstsins. „Helgarpósturinn var á þessum tíma eina blaðið sem sagði eitthvað. Hin blöðin voru svo þæg undir einhvern flokksaga en Helgarpósturinn þyrfti ekki um að binda ef ég næði honum á okkar band. Það kviknar ljós í augunum á mér.“

Fékk stærsta vinninginn í happdrætti um lífsförunaut

Guðrún mælti sér mót við Ólaf Hannibalsson, ritstjóra Helgarpóstsins og færði honum gögnin. Hún leit aldrei um öxl eftir þann fund.  „Þetta var besta gjöf sem ég gat fengið. Svo þegar við vorum búin að loka dríf ég mig upp eftir með möppu af gögnum. Síðan ekki söguna meir. Það var ekki aftur snúið úr þeirri ferð og þetta er minn lífsförunautur og besti félagi.“

Ólafur lést árið 2015 en fylgdi Guðrúnu fram á síðasta dag. Hún lýsir Ólafi svo: „Hann var rosalega réttsýnn og minnugur, hann kunni alltaf sögu hlutanna. Svo er það húmorinn, réttsýni, hlýja og tilgerðarleysi.“ Og Guðrún verður því ævinlega þakklát að hafa tekið svo harða afstöðu gegn byggingu ráðhússins því það reyndist mikil örlagaákvörðun. „Að álpast til að hitta svona mann þegar maður er bara að álpast til að aktívistast út af ráðhúsi, það er lukka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að í happdrættinu um lífsförunaut fékk ég stærsta vinninginn.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Guðrúnu Pétursdóttur í Ástarsögum á Rás 1.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Elti leikkonu úr Law and Order alla leið til New York

Myndlist

„Okkur var boðið kampavín, svo fóru þau úr herberginu“

Menningarefni

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“