Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Vissum ekki það sem við vitum núna“

08.08.2020 - 12:51
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir segir að miðað við núverandi stöðu þekkingar á kórónuveirunni sé óhætt að mæla með grímunotkun fyrir almenning ef ekki er hægt að gæta fjarlægðatakmarkana. Hún segir jafnframt að falskt öryggi hafi hugsanlega verið fólgið í landamæraskimun.

Bryndís Sigurðardóttir var gestur Þórhildar Þorkelsdóttur í Vikulokunum. Heyra má viðtal við hana og Sigríði Á. Andersen í spilaranum fyrir ofan.

Grímur geta hugsanlega stuðlað að myndun mótefnis

„Við vissum ekki það sem við vitum núna fyrir tveimur til þremur mánuðum. Ég held reyndar að ég hafi síðast sagt í viðtali í maí eða júní að mér fyndist fráleitt að Íslendingar byrjuðu að ganga með grímur eða fara út í búð með grímu,“ segir Bryndís. Nú er staða þekkingar hins vegar önnur.

Bæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Sjúkdómavarnamiðstöð Bandaríkjanna (CDC) lýstu því yfir í vor að grímunotkun gæti komið að gagni til þess að hefta útbreiðslu veirunnar, en ekki var mælt með grímunotkun í upphafi faraldursins.

Bryndís segir að margt hafi verið á huldu varðandi smitleiðir kórónuveirunnar í upphafi en nú sé talið að kórónuveiran smitist sennilega bæði með úða- og loftsmiti. Sérfræðingar úti í heimi hafi áttað sig á að heimsbyggðin stæði frammi fyrir sjúkdómi sem við hefðum aldrei þurft að glíma við áður og því hafi verið ljóst að grípa þyrfti til allra mögulegra lausna til þess að minnka útbreiðsluna. Hefðbundnar skurðlæknagrímur væru einn af þeim möguleikum.

„En það er ekki hundrað prósent, við losnum ekki við veiruna með þessu. En hugmyndin er sú að með því að minnka veirumagn sem sýktur smitar frá sér versus það sem sá sem ekki er veikur andar að sér, þá getum við minnkað magn veikindanna,“ segir hún. Bryndís nefnir jafnframt að hugsanlega geti sá einstaklingur líka myndað mótefni og þá væri um einkennalaust smit að ræða. „Við höfum séð ótrúlega áhugaverðar niðurstöður á undanförnum vikum og mánuðum að með því að minnka smit í samfélaginu, þá getum við samt útsett einstaklinga fyrir litlu veirumagni, það er að segja gert þá lítið veika eða einkennalausa, en samt mynda þeir mótefni. Manni fannst fráleitt þegar verið var að tala um buff eða bómullargrímur fyrir nokkrum mánuðum en þetta virðist skipta máli,“ segir Bryndís.

Falskt öryggi hugsanlega fólgið í landamæraskimun

Landamæri Íslands voru svo gott sem lokuð frá upphafi faraldursins og þar til 15. júní síðastliðinn. Bryndís segir að vitneskjan um skimanir farþega á landamærunum hafi ef til vill veitt falskt öryggi. Fólk hafi staðið í þeirri trú að það væri að standa sig vel og að veiran væri ekki að lauma sér inn í samfélagið erlendis frá. „En það var svo sannarlega ekki, við vissum að hún myndi koma til landsins einhvern veginn, með fölskum neikvæðum sýnum eða öðru. Það er bara staðreynd og við því búið.“ Hún segir að fólk hafi byrjað að gæta sín aftur eftir að innanlandssmit tóku að greinast á ný. 

„Svo gerist það í síðustu viku að tilfelli fóru að greinast. Þótt í upphafi hafi þetta ekki verið mikið veikir einstaklingar, þá fór fólk fór að passa sig aftur,“ segir Bryndís og ítrekar að besta leiðin til þess að koma í smit séu fjarlægðartakmarkanir, handhreinsun og handþvottur.