Varane í veseni er Manchester City komst áfram

epaselect epa08590593 Manchester City's Raheem Sterling (C) and Real Madrid's Raphael Varane (L) in action during the UEFA Champions League Round of 16 second leg soccer match between Manchester City and Real Madrid in Manchester, Britain, 07 August 2020.  EPA-EFE/Nick Potts / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL

Varane í veseni er Manchester City komst áfram

08.08.2020 - 10:10
Manchester City og Lyon tryggðu sér í gærkvöld farseðil í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þegar liðin unnu sín einvígi gegn Real Madríd annars vegar og Juventus hins vegar í 16-liða úrslitunum. Klaufaleg mistök reyndust Madrídingum afar dýrkeypt.

 

Manchester City vann Real Madrid 4-2 samanlagt í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. City vann fyrri leikinn 2-1 á Santiago Bernabéu heimavelli Madrídarliðsins. En það var strax á 9. mínútu sem fjörið hófst, Raphael Varane varnarmaður Real gerði sig sekan um slæm mistök sem Gabriel Jesus nýtti sér og staðan orðin 1-0 Manchester City í vil.

Eftir 28. mínútna leik jafnaði Karim Benzema fyrir Real og þannig var staðan í hálfleik. Raphael Varane var svo aftur á ferðinni á 68. mínútu, þá ætlaði hann að skalla boltann til baka á Courtois í markinu en Gabriel Jesus komst þá inn í sendinguna og skoraði framhjá Courtois af stuttu færi. Lokatölur 2-1 Manchester City í vil sem mætir Lyon í 8-liða úrslitum í Portúgal þar sem öll Meistaradeildin verður kláruð.

Lyon mætti Juventus í hörkuleik í gærkvöld sömuleiðis. Lyon vann fyrri leikinn í Frakklandi 1-0 og ljóst að tækist Lyon að skora útivallamark yrði róðurinn erfiður fyrir Ítalíumeistarana. Sú varð raunin strax á 12. mínútu leiksins þegar Hollendingurinn Memphis Depay skoraði og kom Lyon yfir 1-0 með marki úr vítaspyrnu. Þá var komið að Cristiano Ronaldo að taka vítaspyrnu fyrir Juventus. Ronaldo jafnaði metin á 43. mínútu leiksins og allt jafnt í hálfleik. 

Ronaldo bætti svo við öðru marki sínu á 60. mínútu leiksins og setti um leið mikla pressu á franska liðið. Þá pressu tókst Lyon að standa af sér og lokatölur urðu 2-1 sem þýðir að Lyon er komið áfram í 8-liða úrslitin og mætir eins og áður sagði Manchester City.