Manchester City vann Real Madrid 4-2 samanlagt í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. City vann fyrri leikinn 2-1 á Santiago Bernabéu heimavelli Madrídarliðsins. En það var strax á 9. mínútu sem fjörið hófst, Raphael Varane varnarmaður Real gerði sig sekan um slæm mistök sem Gabriel Jesus nýtti sér og staðan orðin 1-0 Manchester City í vil.
Eftir 28. mínútna leik jafnaði Karim Benzema fyrir Real og þannig var staðan í hálfleik. Raphael Varane var svo aftur á ferðinni á 68. mínútu, þá ætlaði hann að skalla boltann til baka á Courtois í markinu en Gabriel Jesus komst þá inn í sendinguna og skoraði framhjá Courtois af stuttu færi. Lokatölur 2-1 Manchester City í vil sem mætir Lyon í 8-liða úrslitum í Portúgal þar sem öll Meistaradeildin verður kláruð.
Lyon mætti Juventus í hörkuleik í gærkvöld sömuleiðis. Lyon vann fyrri leikinn í Frakklandi 1-0 og ljóst að tækist Lyon að skora útivallamark yrði róðurinn erfiður fyrir Ítalíumeistarana. Sú varð raunin strax á 12. mínútu leiksins þegar Hollendingurinn Memphis Depay skoraði og kom Lyon yfir 1-0 með marki úr vítaspyrnu. Þá var komið að Cristiano Ronaldo að taka vítaspyrnu fyrir Juventus. Ronaldo jafnaði metin á 43. mínútu leiksins og allt jafnt í hálfleik.
Ronaldo bætti svo við öðru marki sínu á 60. mínútu leiksins og setti um leið mikla pressu á franska liðið. Þá pressu tókst Lyon að standa af sér og lokatölur urðu 2-1 sem þýðir að Lyon er komið áfram í 8-liða úrslitin og mætir eins og áður sagði Manchester City.