Sprengiefnið ætlað fyrir námavinnslu í Mósambík

08.08.2020 - 08:44
epa08589657 Members of German rescue team @fire Internationaler Katastrophenschutz Deutschland takes part in the search for bodies and survivors amid the rubble three days after explosions that hit Beirut port, in Beirut, Lebanon, 07 August 2020. Lebanese Health Ministry on 07 August said at least 154 people were killed, and more than 5,000 injured in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August and believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ammóníum nítrat, sprengiefnið sem olli mannskæðri sprengingu í Beirút í vikunni, var upphaflega keypt til að nota við námavinnslu í Mósambík.

Þetta hefur fréttastofa CNN eftir talsmanni mósambíska sprengiefnaframleiðandans Fábrica de Explosivos Moçambique (FEM).

Staðfest hefur verið að á annað hundrað manns hafi farist í sprengingunni, þúsundir slösuðust og fjölda er enn saknað. Þá eru um 300.000 manns heimilislaus vegna þeirra miklu skemmda sem urðu.

Talsmaður FEM sagði CNN að fyrirtækið hefði pantað efnið sem hefði átt að nota til að búa til sprengiefni fyrir námafyritæki í Mósambík.

Efnið komst hins vegar aldrei á áfangastað, en líbanskir fjölmiðlar hafa áður greint frá því að sprengiefnið hafi upphaflega verið flutt til Beirút árið 2013 með skipinu Rhosus, sem var í eigu rússneska auðmannsins Igor Grechushkin. Skipið sem var skráð í Moldóvu bilaði á leið frá Georgíu til Mósambík og kom því við í Beirút, þrátt fyrir að borgin væri ekki á ferðaáætlun skipsins.

Grechushkin varð síðan gjaldþrota og var skipið skilið eftir í Beirút, ásamt áhöfn. Líbönsk yfirvöld gerðu sprengiefnið upptækt og komu því í vöruskemmu, þar sem það var svo geymt.

Samkvæmt FEM er þetta í eina skipti sem ammóníum nítrat sending skilaði sér ekki til þeirra „Þetta er ekki algengt. Þetta er alls ekki algengt,“ sagði talsmaðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Hann segir ekki hafa verið greitt fyrir sendinguna sem skilaði sér ekki og því hafi málið alfarið verið úr þeirra höndum. Það hafi þó komið þeim verulega á óvart að frétta að efnið hefði verið geymt við höfnina í Beirút í öll þessi ár, en þau hafi lagt tvo og tvo saman er þau fréttu að efnið hefði átt að fara til Mósambík.

„Þetta er ekki efni sem maður vill geyma án þess að hafa not fyrir það,“ sagði hann og kvað strangar reglur gilda um flutning á& ammóníum nítrati.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi