Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skjálfti upp á 4,6 skammt norður af Eyjafirði

08.08.2020 - 04:12
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Snarpur jarðskjálfti, 4,6 að stærð, varð skammt norð-norðvestur af Gjögurtá út af Eyjafirði klukkan sautján mínútur í fjögur í nótt. Íbúar við Eyjafjörð og á Tröllaskaga fundu rækilega fyrir skjálftanum, og í Skíðadal fann fólk líka vel fyrir öflugum eftirskjálfta á sömu slóðum tíu mínútum síðar. Sá reyndist 3,7 að stærð. Rúmlega 40 smáskjálftar fylgdu í kjölfar þeirra stóru.

Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftana framhald af þeirri hrinu sem hefur staðið yfir á þessum slóðum á Tjörnesbrotabeltinu síðustu vikur. Í henni varð síðast skjálfti yfir fjóra að stærð þann 19. júlí. Sá mældist 4,4 að stærð. Hulda Rós segir tilkynningar um skjálftana hafa streymt inn frá Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði, Dalvík, Hrísey og víðar við Eyjafjörð og á Tröllaskaga. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að jörð hafi líka skolfið hressilega austur í Köldukinn. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV