Saka Rússa, Kínverja og Írana um afskipti af kosningum

Mynd með færslu
 Mynd: pixnio
Rússar, Kínverjar og Íranar freista þess allir að hafa áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna í haust og beita til þess óeðlilegum og ólöglegum meðulum. Þetta er mat forstjóra einnar fjölmargra bandarískra leyniþjónustustofnana, Gagnnjósna- og öryggisstofnunarinnar, sem hefur meðal annars það hlutverk að fylgjast grannt með öllum ógnum sem steðja að forsetakosningunum erlendis frá.

Forstjórinn, William Evanina, segir Rússa styðja Donald Trump, Kínverja kjósa Joe Biden en Írana einfaldlega reyna að skapa glundroða, óvissu og ósætti í tengslum við kosningarnar.

Óttast að sagan frá 2016 endurtaki sig

Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa fært óyggjandi sönnur á óeðlileg afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016, þegar rússneskir útsendarar, hakkarar og þjarkar beittu sér af krafti á samfélagsmiðlum gegn Hillary Clinton og fyrir Donald Trump. Evanina segir allt benda til þess að þeir ætli sér að endurtaka þennan leik núna.

„Rússar nota margvíslegar leiðir til þess fyrst og fremst að ófrægja Biden og það sem Rússar álíta Rússlandsfjandsamlegt valdakerfi," segir í yfirlýsingu forstjórans.

Kínverjar vilja á hinn bóginn síður að Trump nái endurkjöri, að hans sögn. Þeir álíti Trump óútreiknanlegan og óhallkvæman kínverskum hagsmunum, jafnt á sviði alþjóðastjórnmála og -viðskipta. Því reyni Kínverjar að beita bandaríska stjórnmála- og áhrifamenn þrýstingi af ýmsu tagi, hafa uppi og ýta undir gagnrýni á frammistöðu Trumps og stjórnar hans í baráttunni við kórónaveiruna og annað það sem þeir telja geta komið honum illa.

Íranar vilja óreiðu og sundrung

Íranar, segir Evanina, eru svo á enn öðrum slóðum. Þeirra markmið virðist helst að grafa undan lýðræðislegum innviðum Bandaríkjanna, sverta Trump, skapa óreiðu og auka enn á sundrungu og flokkadrætti meðal kjósenda í aðdraganda kosninganna. Þetta ætli þeir að líkindum helst að gera með dreifingu á falsfréttum og and-bandarískum áróðri á samfélagsmiðlum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi