„Lífið getur leikið við þig dag' og nætur“

Mynd: Herbert Guðmundsson / Herbert Guðmundsson

„Lífið getur leikið við þig dag' og nætur“

08.08.2020 - 10:04

Höfundar

„Lífið er engu líkt. Lífið getur leikið við þig dag' og nætur,“ syngur tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson í nýju lagi. Herbert segir það hafa verið nokkuð þungan róður að vera tónlistarmaður á tímum Covid-19 faraldursins. Honum tekst þó ávallt að hafa jákvæðnina að leiðarljósi, líkt og texti lagsins ber með sér.

Nýja lagið ber heitið Lífið. „Þetta er hraðasta tempó sem ég hef unnið með á ferlinum, þetta er rosalegt „dansbeat“, sagði Herbert í spjalli við Morgunútvarp Rásar 2.

Þrátt fyrir að Covid-19 faraldurinn hafi komið illa við listafólk hefur sköpunarkrafturinn blómstrað og margir samið og gefið út, bæði tónlist og fleira. Herbert Guðmundsson er þeirra á meðal. Hann hefur nýtt tímann í að skapa og segir fleiri ný lög væntanleg, meðal annars rokkballöðu sem bíði haustsins.

Bankar upp á hjá fólki og selur diska

Hann segir að sökum faraldursins hafi hann verið nær atvinnulaus í fimm mánuði hvað tónlistarstarfið varðar. Herbert, sem er annálaður sölumaður, deyr þó ekki ráðalaus.

„Ég hef bara sett diska í bílinn og bara farið á galinu, eins og það er kallað, bara keyrt út á land og bankað upp á hjá landanum. Fólk tekur manni voða vel. Það er bara þannig. Þetta hefur bara gengið upp. Fólk líka virðir það að maður lifir af því að vera listamaður. Ég hef lent í því að menn hafa keypt af mér disk sem áttu ekki spilara.“ Fólk vilji sýna stuðning.

Jákvæðnin aldrei langt undan

Herbert segist alltaf reyna að hafa jákvæðnina að leiðarljósi. „Það er svo auðvelt að vera alltaf að barma sér og vera með eitthvað svona skítkast þannig að mér finnst betra að vera bara bjartur.“

Hann segir lykilatriði að byrja daginn á bæn. „Ég legg bara daginn í hendurnar á æðri mætti. Það er bara lykillinn. Ég er ekkert að fara að stjórna þessari leiksýningu. Ég bara gefst upp á hverjum morgni eins og við köllum það í tólf spora kerfinu. Fer með mjög góða bæn þar sem ég legg daginn í hendurnar á því sem ég kalla Guð, og síðan enda ég daginn þannig líka.“

Hann segist búa að því að amma hans hafi kennt honum bænir þegar hann var ungur. „Ég dustaði bara rykið af þeim fyrir um þrettán árum síðan þegar ég tók tólf spora vinnuna í gegn og tók til í rústum fortíðarinnar.“

Þá segir hann að það hjálpi að horfa á bíómyndir og lesa bækur sem beri jákvæðan boðskap, í því felist lykillinn. „Reynir bara að moka í andann á sér einhverju jákvæðu, ekki vera að velta sér upp úr einhverju dökku og leiðinlegu.“

 

Mynd: Herbert Guðmundsson / Youtube

Tengdar fréttir

Tónlist

Gáfu Hebba klisjuna og gerðu grín að honum í leiðinni

Tónlist

„Þetta er bara gæsahúð, ég er kominn heim“

Tónlist

Olli fjölskyldunni sorg ofan á aðra sorg

Popptónlist

Starbright