Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Yfir milljón manns hafa greinst með COVID-19 í Afríku

07.08.2020 - 03:20
epa08586825 Volunteers in personal protective equipment (PPE) hand out food during the weekly feeding scheme at the Heritage Baptist Church amid the coronavirus emergency lockdown in Melville, Johannesburg, South Africa, 06 August 2020. Volunteers from the Viva Foundation have been helping feed around 500 people per week at the church. Food insecurity remains a pressing issue in South Africa amid the ongoing coronavirus pandemic and a recent spike in COVID-19 cases.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
Sjálfboðaliðar deila út matargjöfum á vegum kirkju í Jóhannesarborg Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir ein milljón manna hefur smitast af kórónaveiru í Afríku. Heilbrigðisyfirvöld í sumum löndum álfunnar gera sér vonir um að farsóttin hafi þegar náð hámarki, en á sama tíma fara áhyggjur vaxandi af annarri bylgju. Samkvæmt gögnum AFP-fréttastofunnar fóru staðfest smit í Afríku yfir eina milljón í gærkvöld og skráð dauðsföll af völdum COVID-19 eru tæplega 22.000 talsins.

Yfir helmingur smita í Suður-Afríku

75 prósent allra smita í álfunni hafa greinst í fimm löndum, samkvæmt upplýsingum sameiginlegrar sóttvarnarstofnunar Afríku. Það sem meira er, þá hefur rúmur helmingur allra tilfella, 53 prósent, greinst í Suður-Afríku. Hin ríkin fjögur sem verst hafa orðið úti eru Egyptaland, Nígería, Ghana og Alsír.

Í Suður-Afríku hafa greinst nær 540.000 kórónaveirusmit og rúm 9.600 dauðsföll verið rakin til COVID-19. Nýsmitum hefur heldur farið fækkandi, síðustu daga hafa greinst undir 10.000 smit á dag en lungann úr júlímánuði voru þau um og yfir 12.000 á dag.

Gripið var til harðra aðgerða í landinu til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar, strangt útgöngubann var þar í gildi um margra vikna skeið og í tvígang var gripið til þess ráðs að banna sölu á áfengi. Byrjað var að aflétta hömlum í júní, en fjöldatakmarkanir, grímuskylda á ákveðnum svæðum og fleiri sóttvarnaraðgerðir eru þó enn við lýði.

Í Egyptalandi hafa yfir 95.000 kórónaveirusmit verið skráð af heilbrigðisyfirvöldum og 4.630 dauðsföll af völdum COVID-19. Nýjum smitum hefur fækkað enn meira þar en á hinum enda álfunnar, því nú greinast þar um 200 smit á viku en þau voru um 1.500 á viku til skamms tíma.