Yfir 2.000 dóu úr COVID-19 í Bandaríkjunum í gær

epa08588086 A sign observing mandatory use of face mask can be seen at the Observation Deck at Top of The Rock in Rockefeller Center during the reopening preview in New York, New York, USA, 06 August 2020. The viewing platform that sits atop 30 Rockefeller Plaza, will reopen to the public after temporarily closing in March to help limit the spread of Covid-19.  EPA-EFE/Alba Vigaray
 Mynd: epa
2.060 dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð í Bandaríkjunum næstliðinn sólarhring og um 58.000 ný kórónaveirusmit voru staðfest þar í landi. Fleiri hafa ekki dáið á einum sólarhring vestra í hartnær þrjá mánuði. Eftir að nokkuð var tekið að hægjast á útbreiðslu farsóttarinnar í Bandaríkjunum í vor færðist hún aftur mjög í aukana í lok júní og hefur ekki slakað á klónni síðan. Rétt rúmlega 160.000 manns hafa nú dáið úr COVID-19 þar í landi og staðfest smit nálgast 4,9 milljónir.

Yfir 19 milljónir kórónaveirusmita hafa verið staðfest í heiminum öllum og tæplega 714.000 dauðsföll. Heitast geisar hún í Bandaríkjunum, Mexíkó, Suður-Ameríku og á Indlandi. Um 40 prósent allra smita hafa greinst í Bandaríkjunum og Brasilíu.

Sjá einnig: Yfir milljón manns hafa greinst með COVID-19 í Afríku

Brasilía er það land sem hefur orðið næst verst úti í faraldrinum. Þar hafa ríflega 2,9 milljónir greinst með kórónaveirusmit og dauðsföllin nálgast óðum 100.000. Í Mexíkó eru dauðsföllin orðin fleiri en 50.000, en í Bretlandi, sem er næst á hinum dapurlega lista yfir fjölda fallinna í heimsfaraldrinum, hafa 46.500 dauðsföll verið rakin til COVID-19. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi