
Skoða ýmsar lausnir fyrir haustið en óvissan er mikil
„Við erum að skoða að setja sprittbrúsa um borð í vagnana eða jafnvel að loka fremstu sætaröðunum,“ segir Guðmundur. Hann segir að í gegnum tíðina hafi gjarnan verið gripið til þess ráðs að bæta við vögnum á þéttsetnustu leiðunum á háannatímum. Guðmundur útilokar ekki að minna muni þurfi að koma til en venjulega til þess að gripið verði til þess ráðs þegar skólarnir byrja í haust.
Greint var frá því í vikunni að samgönguyfirvöld í Svíþjóð óttist öngþveiti í almenningssamgöngum þegar skólarnir hefjast á ný eftir sumarfrí. Þar hefur til að mynda verið lagt til að seinka skóladeginum hjá hluta nemenda til að koma í veg fyrir að örtröð myndist á háannatímum. Einnig eru uppi hugmyndir um að setja takmörk á fjölda farþega í hverjum vagni.
Guðmundur segir að ekki sé haldið utan um fjölda strætófarþega hverju sinni hér á landi. Hann segir að erfitt sé að telja farþega inn í vagnana og ekki sé raunhæft að ætla að grípa til einhvers konar ráðstafana ef fjöldi farþega í einum vagni fer yfir ákveðna tölu. „Við brýnum hins vegar fyrir farþegum að fara eftir tilmælum ef vagninn er að fyllast,“ segir Guðmundur og nefnir handþvott, fjarlægðartakmarkanir og andlitsgrímur í því samhengi. Rétt er að nefna að ekki er grímuskylda í Strætó á höfðuborgarsvæðinu. Hins vegar ber farþegum sem ferðast lengur en í þrjátíu mínútur í senn að hafa grímu fyrir vitum sér.
Framhaldsskólar og háskólar hefja starfsemi sína á ný um miðjan mánuðinn. Ljóst er að einhver röskun verður á skólastarfi í vetur en ekki liggur fyrir að hve miklu marki. Háskóli Íslands tilkynnti í gær að einhverjar takmarkanir verði á skólastarfi í vetur vegna faraldursins. Sömuleiðis er búist við að kennsla verði að einhverju leyti rafræn í Háskólanum í Reykjavík. Þá greindi Verzló frá því á vef sínum í gær að skólinn vonaðist til að framhaldsskólar fengju undanþágu frá reglum um fjöldatakmarkanir, líkt og grunnskólar.
Hertar sóttvarnarreglur vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi þann 31. júlí síðastliðinn og gilda í tvær vikur. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann íhugaði alvarlega að leggja til hertari takmarkanir á næstu dögum ef tilfellum heldur áfram að fjölga.
„Það eru svo margir óvissuþættir ennþá. Það er alltaf hægt að bæta við bílum ef þörf er á en við þurfum bara að bíða og sjá hvað gerist,“ segir Guðmundur.