Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólíklegt að fleiri finnist á lífi í Beirút

07.08.2020 - 09:21
Mynd: epa / epa
Hver sekúnda skiptir máli þegar leitað er að fólki í rústum bygginga og ekki líklegt að margir finnist á lífi þegar langt er um liðið. Þetta segir Gísli Rafn Ólafsson, sem hefur unnið við rústabjörgun eftir náttúruhamfarir í Haítí, Nepal og víðar.

Gísli Rafn Ólafsson ræddi starf rústabjörgunarmanna á Morgunvaktinni á Rás 1.

Mikil eyðilegging er í Beirút eftir sprenginguna miklu í vöruhúsi við höfnina þar á þriðjudag. Til Líbanon streymir nú hjálparstarfsfólk víða að, meðal annars sérhæfðar rústabjörgunarsveitir.

Gísli Rafn, sem starfaði um árabil með íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni, segir ólíklegt að margir af þeim tugum manna sem enn er saknað finnist á lífi úr þessu. Þó séu dæmi um að fólk finnist á lífi í rústum bygginga eftir marga daga.

„Eftir svona sprengingu eins og var í Beirút og þeir sem hafa séð myndirnar af vettvangi að hafa séð að það er mikil eyðilegging. Þá eru oft fáir á lífi og því miður hefur það verið þannig að undanfarinn sólarhring hafa engir fundist á lífi samkvæmt því sem ég hef heyrt,“ segir hann.

Rústabjörgunarstarf er erfitt og tæknilega flókið. Rústabjörgunarsveitir notast við leitarhunda og ýmisskonar tækni til þess að finna fólk á lífi í rústum bygginga, og svo til að komast að þeim sem finnast. 

Gísli Rafn segir fyrsta starf rústabjörgunarsveita vera að reyna að finna hvort að einhverjir séu á lífi í rústunum. Farið er skipulega í gegnum svæðin og finnist vísbendingar um lífsmörk hefst vinna við að reyna að staðsetja hvaðan hljóðið berst. „Þegar byggingar falla þá breytist allt skipulag á þeim og maður þarf að finna út hvernig gæti hljóðið verið að berast alla þessa leið,“ segir hann. 

Að því loknu fer svo í gang vinna við að finna viðkomandi inni í rústunum og komast þar að. „Brjóta sig í gegnum steypu og annað sem er fyrir og bjarga viðkomandi.“

Gísli Rafn segir rústabjörgunarmenn vel meðviðtaða um að eðli hamfaranna hefur áhrif á hvernig byggingar hrynja og eins hvernig holrými kunna að myndast inni í þeim.

„Sprengingar til dæmis eða jarðskjálftar eða fellibyljir skemma hús á mismunandi máta. Sprengingin bendir hann á að sé eitt stutt högg, á meðan að jarðskjálftar geta verið nokkrar mínútur af hristingi fram og til baka. Þá verði  skemmdir sem verða við fellibylji oft við nokkurra klukkustunda. „Þetta hefur áhrif á það hvers konar svæði geta myndast þar sem fólk getur lifað af,“ segir hann og kveður þetta vera nokkuð sem rústabjörgunarmenn læra, þjálfa og hugsa út í.
 

Starfið getur verið mjög hættulegt björgunarfólki. Gísli Rafn segir að þá sé það einnig andlega erfitt, og mikilvægt að huga að áfallahjálp fyrir björgunarmenn eftir hamfarir sem þessar.

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Þór Sigbjörnsson - RÚV
Gísli Rafn Ólafsson.
verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður