Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Helgin sker úr um hvort herða þurfi aðgerðir

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Helgin sker úr um það hvort herða þurfi sóttvarnaraðgerðir, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að faraldurinn væri í vexti og að því íhugaði hann nú alvarlega að leggja til á næstu dögum að samkomutakmarkanir verði hertar.

„Þótt það séu ákveðin vonbrigði að standa í þessum sporum í dag þá getum við horft til reynslunnar af því sem við gerðum síðastliðinn vetur. Þá voru þær aðgerðir sem við gripum til áhrifaríkar. Og það er engin ástæða til að halda annað en að við getum náð böndum á þennan faraldur. Það getur tekið einhvern tíma og það getur verið að við þurfum að herða aðgerðir frá því sem nú er,“ sagði Þórólfur.

Hann minnti svo á mikilvægi þess að fylgja sóttvarnarreglum. „En ég hef fulla trú á að okkur muni takast það ef við bara stöndum saman og förum eftir þeim reglum sem gefnar hafa verið út og allir þekkja en virðist vera orðið dálítið erfitt að fara eftir,“ sagði Þórólfur á fundinum.