Boðar refsitolla á kanadískt ál

07.08.2020 - 03:46
epa08588576 US President Donald J. Trump speaks at the Whirlpool Corporation Manufacturing Plant in Clyde, Ohio, USA, 06 August 2020. Ohio Governor DeWine on 06 August 2020 announced he was tested positive for coronavirus, shortly before he was scheduled to meet US President Trump.  EPA-EFE/DAVID MAXWELL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti í gær að hann hefði fyrirskipað að aftur skuli leggja tíu prósenta refsitoll á innflutt, kanadískt ál, þar sem þetta helsta viðskiptaríki Bandaríkjanna færi offari í sölu og undirboðum á bandarískum álmarkaði.

„Kanada er að misnota velvild okkar, eins og venjulega,“ sagði Trump í ávarpi sem hann flutti í þvottavélaverksmiðju raftækjarisans Whirlpool í Ohio í gær. „Ég undirritaði yfirlýsingu sem ver bandarískan iðnað með því að leggja refsitolla á kanadískt ál á nýjaleik.“

Kanadísk framleiðsla var undanþegin slíkum tollum eftir að Bandaríkin, Kanada og Mexíkó komust að samkomulagi um nýjan fríverslunarsamning í stað eldri samnings, sem Trump sagði afar óhagstæðan Bandaríkjunum. Hann setti þó þann fyrirvara að „þeir kaffæri ekki landið okkar í innflutningi og drepi öll ál-störfin okkar.“

Kannast ekki við aukinn útflutning til Bandaríkjanna

Nýi samningurinn gekk í gildi 1. júlí síðastliðinn og halda stjórnvöld í Washington því fram að álinnflutningur frá Kanada hafi aukist um 27 prósent síðan. Þetta kannast kanadískir álframleiðendur ekki við og Chrystia Freeland, aðstoðarforsætisráðherra Kanada, fordæmir ákvörðun Trumps. Hún segir tollana „óréttmæta og óásættanlega“ og heitir því að grípa skjótt til viðeigandi gagnaðgerða.

Bandarískir varahlutaframleiðendur gagnrýna tollana

Innflutningsráð Bandaríkjanna hvetur Trump líka til að endurskoða ákvörðun sína um refsitolla, sem á að ganga í gildi 16. þessa mánaðar. Formaður ráðsins, Rufus Yerxa, segir ákvörðunina hvorki byggða á gildum rökum né rannsóknum og telur víst að tollarnir muni gera bandarískum iðnaði meira illt en gott. Þetta eigi ekki síst við um framleiðendur bílaíhluta og varahluta.

Samtök þeirra sendu frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að tollarnir muni „auka enn á fjárhagserfiðleika bandarískra varahlutaframleiðenda á tímum, þegar greinin er að berjast við að halda sjó eftir verksmiðjulokanir og efnahagsþrengingar.“
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi